Erlent

Flóðbylgjuviðvörun eftir skjálfta 7,9 að stærð við Alaska

Atli Ísleifsson skrifar
Skjálftinn varð á tíu kílómetra dýpi.
Skjálftinn varð á tíu kílómetra dýpi. USGS
Flóðbylgjuviðvörun var gefin út í Alaska og allri vesturströnd Kanada vegna gríðarmikils skjálfta, 7,9 að stærð, sem varð suður af strönd Alaska í morgun. Viðvörunin var afturkölluð um klukkan 13 að íslenskum tíma.

Á síðu Bandarísku jarðfræðistofnunarinnar (USGS) segir að upptök skjálftans hafi verið 278 kílómetrum suðaustur af Kodiak og á tíu kílómetra dýpi.

Skjálftinn varð klukkan 9:31 að íslenskum tíma, eða um hálf eitt að nóttu til að staðartíma. Fólk á hættusvæðum, eins og á Kodiak, var hvatt til að halda inn til landsins, og halda þar kyrru fyrir.

Vel er fylgst með gangi mögulegum áhrifum skjálftans bæði í Bresku Kólumbíu, Alaska og víða annars staðar í norðanverðu Kyrrahafi og var fólk hvatt til að leita til fjalla af ótta við flóðbylgju. 

Öflugasti skjálftinn frá 1965

Skjálftinn er sá öflugasti í eða við Alaska frá árinu 1986 þegar skjálfti 8,0 að stærð reið yfir. Þann 27. mars 1964, varð skjálfti 9,2 að stærð, sem varð 139 manns að bana vegna flóðbylgju og þegar byggingar eyðilögðust.

Fjölmiðlar í Alaska segja að víða hafi fundist fyrir skjálftanum. Kodiak er stærsti bærinn á samnefndri eyju, en árið 2010 bjuggu þar um 13.400 manns.

Að neðan má sjá tíst fréttamanns fjölmiðils í Alaska. Varað hefur verið við að fyrstu bylgjurnar kunni að skella á Alaska um klukkan tvö að staðartíma, eða ellefu að íslenskum tíma.
Upphaflega mældist styrkur skjálftans 8,2, en á síðu USGS hefur styrkurinn nú verið lækkaður í 7,9.

Nokkrir eftirskjálftar hafa fylgt í kjölfarið, sá öflugasti 5,0 að stærð.

Fréttin var síðast uppfærð klukkan 13:42.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×