Lífið

Neil Diamond hættir tónleikaferðum vegna Parkinson-sjúkdómsins

Birgir Olgeirsson skrifar
Neil Diamond.
Neil Diamond. Vísir/Getty
Bandaríski tónlistarmaðurinn Neil Diamond hefur tilkynnt að hann sé hættur tónleikaferðalögum eftir að hafa greinst með Parkinson-sjúkdóminn. 

Diamond er 76 ára en hann tilkynnti um ákvörðun sína með orðsendingu á fjölmiðla en þar kom fram að sjúkdómurinn hefði gert honum erfitt fyrir að löngum tónleikaferðalögum. 

„Ég hef verið svo lánsamur að geta haldið tónleika fyrir almenning síðastliðin 50 ár. Ég  vil biðja alla afsökunar sem höfðu keypt miða og ætlað sér að mæta á fyrirhugaða tónleika,“ segir Diamond í tilkynningunni. 

Hann segist ætla að halda áfram að semja og hljóðrita tónlist og vinna að öðrum verkefnum. Hann þakkar öllum sínum tryggu aðdáendum um allan heim. 

„Þið munuð alltaf eiga þakklæti mitt fyrir stuðning ykkar og hvatningu.“

Diamond hafði fyrirhugað að halda tónleika í Ástralíu og Nýja Sjálandi í tilefni af fimmtíu ára starfsafmæli hans. Hann hefur aflýst þeim tónleikum og hafið endurgreiðslu til þeirra sem höfðu keypt miða. 

Þetta hefði verið þriðji leggur tónleikaferðar hans en hann hafði selt upp í samkomuhallir í Bandaríkjunum og Evrópu í fyrra. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×