City örugglega áfram í úrslitin

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Hörður Björgvin Magnússon í baráttu við Kevin De Bruyne.
Hörður Björgvin Magnússon í baráttu við Kevin De Bruyne. Vísir/Getty
Manchester City tryggði sér sæti í úrslitum enska deildarbikarsins með 2-3 sigri á Bristol City í seinni leik liðanna sem fram fór á Ashton Gate.

Strax frá fyrstu mínútu voru yfirburðir City greinilegir, liðið virtist vera með einokunarvald á boltanum og var búið að fá tvær hornspyrnur eftir fjórar mínútur. Bristol gerði þó mjög vel í að standa vörnina og pressa þegar boltinn barst á vallarhelming City.

Íslenski landsliðsmaðurinn Hörður Björgvin Magnússon var í byrjunarliði Bristol. Hann gerðist sekur um dýrkeypt mistök rétt fyrir lok fyrri hálfleiks þegar hann ætlaði að skýla boltanum út fyrir endamörk en tókst ekki betur til en að Bernardo Silva komst í boltann, náði að leggja hann út á Leroy Sane sem kom Manchester City yfir. Hörður Björgvin var tekinn út af í hálfleik.

Sergio Aguero svo gott sem gerði út um leikinn strax í byrjun seinni hálfleiks með góðu marki úr skyndisókn. Þá var staðan orðin 4-1 fyrir City samanlagt, en fyrri leikurinn fór 2-1 á Etihad vellinum.

Þegar um hálftími var liðinn af leiknum náði Marlon Pack að minnka muninn fyrir Bristol og Aden Flint jafnaði leikinn í uppbótartíma. Þá voru eflaust einhverjir stuðningsmenn heimamanna farnir að vonast eftir kraftaverki, en Kevin de Bruyne gerði út um þær vonir með marki strax í næstu sókn City. Leikurinn var svo flautaður af um leið og miðjan eftir markið hafði verið tekin.

Mjög öruggur sigur City í höfn, en Bristol gerði vel í að standa í gestunum og hefðu getað galdrað fram kraftaverk undir lokin.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira