Innlent

Á­fram í gæslu­varð­haldi grunaður um inn­flutning á veru­legu magni fíkni­efna

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fer með rannsókn málsins.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fer með rannsókn málsins. vísir/eyþór
Annar mannanna sem hnepptir voru í tveggja vikna gæsluvarðhald fyrr í mánuðinum grunaðir um innflutning á verulegu magni fíkniefna var í dag úrskurðaður í áframhaldandi fjögurra vikna gæsluvarðhald á grundvelli almannahagsmuna.

Þetta segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í samtali við Vísi, en lögreglan fór fram á að báðir mennirnir yrðu áfram í haldi. Á það féllst Héraðsdómur Reykjavíkur ekki og var öðrum manninum sleppt.

 

Grímur kveðst ekki eiga von á því að lögreglan kæri þann úrskurð til Hæstaréttar en maðurinn sem úrskurðaður var í áframhaldandi varðhald hyggst kæra úrskurðinn.

Mennirnir eru báðir íslenskir og á þrítugsaldri. Stöð 2 greindi fyrst frá málinu fyrir tveimur vikum og kom þá fram að annar mannanna hefði verið handtekinn á barnum Hvíta riddaranum í Mosfellsbæ .

Þá fór lögreglan ásamt sérsveit ríkislögreglustjóra í aðgerðir í húsnæði Skáksambands Íslands þar sem fíkniefnin komu til landsins í stórum skákmunum en starfsmenn sambandsins eru ekki taldir tengjast málinu.

Grímur vildi hvorki fara út í það hversu mikið magn af fíkniefnum fannst í skákmununum né um hvaða efni er að ræða.


Tengdar fréttir

Fíkniefnin í stórum skákmunum

Aðgerðir lögreglu á Hvíta riddaranum í Mosfellsbæ og í húsnæði Skáksambands Íslands eru hluti af umfangsmeira fíkniefnamáli. Ráðist hefur verið í þrjár húsleitir tengdar málinu í vikunni. Forseti Skáksambandsins segir efnin hafa borist í stórum skákmunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×