Erlent

Utanríkisráðherra Bandaríkjanna segir Rússa ábyrga fyrir efnavopnaárásum í Sýrlandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Tillerson sagði að Rússar ættu að sitja hjá í öryggisráði SÞ ef þeir treystu sér ekki til styðja ályktanir gegn notkun efnavopna í Sýrlandi.
Tillerson sagði að Rússar ættu að sitja hjá í öryggisráði SÞ ef þeir treystu sér ekki til styðja ályktanir gegn notkun efnavopna í Sýrlandi. Vísir/AFP
Rússar bera á endanum ábyrgð á notkun efnavopna í Sýrlandi, að sögn Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Grunur leikur á að efnavopnaárás hafi verið gerð nærri Damaskus, höfuðborg Sýrlands, í vikunni.

Fullyrðir Tillerson að Rússar brjóti gegn ákvæðum samkomulags um að fjarlæga skuli efnavopn frá Sýrlandi sem gert var árið 2013. Rússnesk stjórnvöld aðstoði ríkisstjórn Bashars al-Assad forseta við að brjóta alþjóðlega sáttmála gegn notkun efnavopna, að því er segir í frétt AP-fréttastofunnar.

Rússar verði að hætta að beita neitunarvaldi sínu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna gegn ályktunum um að þeir sem beiti efnavopnum verði dregnir til ábyrgðar. Ummælin lét Tillerson falla á alþjóðlegum fundi í París þar sem tuttugu og fjögur ríki ætla að stofna samtök sem eiga að finna þá sem beita efnavopnum og refsa þeim.

Sýrlensk stjórnvöld eru sökuð um að hafa beitt eiturgasi í árás á úthverfi Damaskusar þar sem uppreisnarmenn fara með völdin í gær. Því neita þau hins vegar. Rússar fullyrða að öfgamenn hafi beitt efnavopnum í Sýrlandi áður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×