Fótbolti

Freyr sáttur: „Úrslitin skipta ekki máli“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Freyr Alexandersson
Freyr Alexandersson vísir/ernir
Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari, var nokkuð ánægður með leik Íslands og Noregs fyrr í dag, þrátt fyrir tap Íslands. Leikurinn var liður í æfingaferð landsliðsins til La Manga á Spáni.

Fanndís Friðriksdóttir kom Íslandi yfir snemma leiks en tvö mörk frá Synne Jensen tryggðu Norðmönnum 2-1 sigur.

„Eins og ég var búinn að segja áður en við komum þá eru úrslitin í æfingaleikjunum núna í vor ekki eitthvað sem við þurfum að hafa miklar áhyggjur af,“ sagði Freyr.

„Við verðum að auka breiddina og þroskast hratt og það er það sem ég er að horfa í.“

Freyr spilaði á mörgum mönnum í dag og voru fimm leikmenn að leika sinn fyrsta landsleik, þær Anna Rakel Pétursdóttir, Andrea Mist Pálsdóttir, Guðný Árnadóttir, Hlín Eiríksdóttir og Selma Sól Magnúsdóttir.

„Mjög sáttur við frammistöðuna. Eins og gengur og gerist komust mistök inn á milli, þetta er 90 mínútna leikur. En það er allt í lagi, þær læra af þeim og eru hérna til þess að fóta sig og verða betri. Hugarfarið og hvað þær lærðu mikið á stuttum tíma er jákvætt.“

„Við þurftum á þessum leik að halda til þess að hjálpa leikmönnum að verða betri.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×