Enski boltinn

Hörður Björgvin baðst innilegrar afsökunar á þessum mistökum | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hörður Björgvin Magnússon og félagar eru úr leik.
Hörður Björgvin Magnússon og félagar eru úr leik. vísir/getty
Hörður Björgvin Magnússon, landsliðsmaður í fótbolta, var í byrjunarliði Bristol City í seinni leik liðsins gegn Manchester City í undanúrslitum enska deildabikarsins í gærkvöldi.

Hörður spilaði sem miðvörður og gerðist sekur um slæm mistök undir lok fyrri hálfleiks þegar að Leroy Sane kom City yfir á sjálfri markamínútunni með skoti úr teignum.

Í aðdraganda marksins reyndi Hörður Björgvin að skýla boltanum aftur fyrir endamörk en það gekk ekki betur en svo að Bernardo Silva hirti af honum boltann og lagði upp markið fyrir þann þýska.

City komst í 2-0 áður en Bristol jafnaði í 2-2 í seinni hálfleik en það var svo Kevin De Bruyne sem tryggði toppliði úrvalsdeildarinnar 3-2 sigur með marki í uppbótartíma. City vann einvígið í heildina, 5-3.

Hörður Björgvin er í góðum tengslum við stuðningsmenn Bristol í gegnum Twitter og nýtti samfélagsmiðilinn til að koma á framfæri afsökunarbeiðni eftir leikinn í gær.

„Þetta var stórt kvöld fyrir okkur. Við komumst svo langt og við sýndum öllum að við getum afrekað stóra hluti. Ég biðst innilegrar afsökunar á mistökum mínum í kvöld en ég mun læra af þeim. Nú þurfum við bara að einbeita okkur að deildinni og ég ætla að gera mitt besta fyrir þetta félag sem mér er svo annt um. Áfram City,“ skrifaði Hörður Björgvin á Twitter-síðu sína.

Bristol City er í fínum málum í deildinni en liðið er með 48 stig í fimmta sæti eftir 28 umferðir, fimm stigum frá öðru sætinu.

Hér fyrir ofan má sjá mistökin sem Hörður Björgvin gerði í fyrsta marki Manchester City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×