Viðskipti innlent

Sprenging orðið í innflutningi á breska klósettpappír Costco

Haraldur Guðmundsson skrifar
Costco hefur flutt inn og selt breskan hreinlætispappír.
Costco hefur flutt inn og selt breskan hreinlætispappír. Fréttablaðið/Ernir
Innflutningur á salernispappír jókst um 61 prósent fyrstu sjö mánuðina eftir opnun Costco í Garðabæ miðað við sama tímabil árið á undan. Aukningin var upp á 748 tonn og má að mestu rekja til innflutnings frá Bretlandi sem stórjókst.

Nýjar tölur Hagstofu Íslands sýna að frá maíbyrjun til nóvemberloka í fyrra voru flutt hingað til lands 1.982 tonn af salernispappír. Yfir sömu mánuði 2016 nam magnið 1.233 tonnum. Í apríl í fyrra nam innflutningur frá Bretlandi 61 tonni en 194 tonnum í mánuðinum þar á eftir þegar verslun Costco var opnuð. Júní var stærsti einstaki mánuðurinn í fyrra en þá nam magnið frá Bretlandseyjum 364 tonnum eða 76 prósentum af heildarinnflutningi á salernispappír í þeim mánuði. Það land sem næst kom á eftir var Svíþjóð með 27 tonn.



Strax eftir opnun Costco hér á landi, sem er rekið af aðalskrifstofu bandaríska verslunarrisans í Bretlandi, í lok maí síðastliðins, fór að bera á miklum vinsældum Kirkland salernispappírsins sem verslunin selur.

Í frétt Fréttablaðsins um miðjan ágúst kom fram að sala íslenska framleiðslufyrirtækisins Papco á pappír og öðrum hreinlætisvörum hefði dregist saman um allt að 30 prósent. Um er að ræða eina framleiðanda landsins á hreinlætispappír sem hafði þá sagt sex starfsmönnum upp störfum, eða einni fullmannaðri vakt í framleiðslu.

Alexander Kárason, aðstoðarframkvæmdastjóri Papco, sagði þá í samtali við blaðið að Costco hefði haft mikil áhrif og Fréttablaðið vitnaði í heimildarmenn þess efnis að sala á hreinlætisvörum í öðrum verslunum hér á landi hefði dregist töluvert saman frá opnuninni í Kauptúni. Fullyrti Alexander að þær vörur væru seldar undir kostnaðarverði. Ekki náðist í stjórnendur Papco við vinnslu þessarar fréttar.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×