Erlent

Trump segist hlakka til að ræða við sérstaka rannsakandann

Kjartan Kjartansson skrifar
Trump sagðist tilbúinn að svara spurningum eiðsvarinn. Áður spurði hann fréttamenn hins vegar hvort að Hillary Clinton hefði verið eiðsvarin þegar hún svaraði spurningum FBI um notkun sína á einkatölvupóstþjóni sumarið 2016.
Trump sagðist tilbúinn að svara spurningum eiðsvarinn. Áður spurði hann fréttamenn hins vegar hvort að Hillary Clinton hefði verið eiðsvarin þegar hún svaraði spurningum FBI um notkun sína á einkatölvupóstþjóni sumarið 2016. Vísir/AFP
Donald Trump Bandaríkjaforseti lýsir sig tilbúinn að til að ræða eiðsvarinn við Robert Mueller, sérstakan rannsakanda á meintu samráði forsetaframboði hans við Rússa. Bandarískir fjölmiðlar hafa greint frá því að Mueller vilji ræða við forsetann á næstu vikum.

„Ég hlakka til þess,“ sagði Trump þegar fréttamenn spurðu hann hvort hann myndi samþykkja að ræða við rannsakandann í Hvíta húsinu dag, að sögn New York Times.

Trump sagðist einnig tilbúinn að svara spurningum eiðsvarinn. Hann vilji ræða við Mueller sem fyrst, að því er Washington Post hefur eftir forsetanum.

Þá virtist Trump staðfesta að hann eigi að svara spurningum um hvort hann hafi reynt að hindra framgang rannsóknarinnar. Washington Post segir hann hafa gefið í skyn að það væri til rannsóknar vegna þess að hann hafi „barist á móti”.

„Barðist hann á móti? Þú barðist á móti, jæja, það er hindrun,“ sagði Trump við fréttamennina.

Man ekki eftir að hafa spurt yfirmann FBI um atkvæði hans

Bandarískir fjölmiðlar hafa greint frá því í gær og í dag að æðstu yfirmenn dóms-, leyniþjónustu- og lögreglumála hafi gefið Mueller skýrslu síðustu vikur og mánuði. Er það talið til marks um að rannsókn Mueller beinist í auknum mæli að því hvort að Trump hafi reynt að hindra framgang réttvísinnar.

Á meðal þeirra sem hafa rætt við rannsakendur Mueller er James Comey, fyrrverandi forstjóri FBI, sem Trump rak, að eigin sögn vegna Rússarannsóknarinnar. Sú ákvörðun varð til þess að Mueller var falið að stjórna rannsókninni.

Bloomberg-fréttastofan segir að Trump hafi jafnframt borið því við í dag að hann myndi ekki eftir að hafa spurt Andrew McCabe, aðstoðarforstjóra FBI, að því hvern hann hefði kosið í forsetakosningunum þegar hann ræddi við hann í Hvíta húsinu skömmu eftir að Trump rak Comey. Washington Post hafði það eftir heimildarmönnum í gær.


Tengdar fréttir

Mueller vill ræða við Trump á næstu vikum

Svo virðist sem að rannsókn bandaríska dómsmálaráðuneytisins beinist nú í auknum mæli að því hvort að Trump forseti hafi reynt að hindra framgang réttvísinnar í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×