Erlent

Lula heldur ótrauður áfram þrátt fyrir dóm

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Allt stefndi í að Luiz Inacio Lula da Silva myndi aftur setjast á forsetastólinn.
Allt stefndi í að Luiz Inacio Lula da Silva myndi aftur setjast á forsetastólinn. Vísir/epa
Áfrýjunardómstóll í Brasilíu hefur staðfest dóm yfir Luiz Inacio Lula da Silva, fyrrverandi forseta, landsins vegna spillingar. Lula getur enn áfrýjað til æðri dómstigs en niðurstaðan þýðir líklega að hann verði ekki kjörgengur í forsetakosningum í október. Þá hjálpar honum ekki að dómarar í áfrýjunardómstólnum komust að samróma niðurstöðu, sem mun torvelda allar frekari tilraunir hans til að reka málið á öðrum dómstigum.

Lula, sem gegndi embætti forseta frá 2003 til 2011, var sakfelldur fyrir að hafa þegið mútur í formi íbúðar við sjávarsíðuna frá verktakafyrirtæki. Á móti hafi fyrirtækið fengið samninga við ríkisolíufyrirtæki Brasilíu. Skoðanakannanir hafa bent til þess að Lula væri sigurstranglegasti frambjóðandinn í forsetakosningunum á þessu ári, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins.

Lula sagðist á fundi með stuðningsmönnum sínum, eftir að dómstóllinn hafði komist að niðurstöðu, ætla að halda ótrauður áfram kosningabaráttunni. „Ég hef ekkert brotið af mér,“ sagði hann fyrir framan þúsundir stuðningsmanna sinna.

Margir í þeirra röðum segja mál hans einkennast af pólitískum nornaveiðum og til þess eins fallið að stöðva hinn væntanlega stórsigur hans í kosningunum í október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×