Handbolti

Svíar búnir að tapa fleiri leikjum en Ísland á EM í ár en samt komnir í undanúrslit

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Guðmundsson í leiknum á mói Svíum.
Ólafur Guðmundsson í leiknum á mói Svíum. Vísir/EPA
Annað Evrópumótið í handbolta í röð mun lið undir stjórn íslensks þjálfara spila um verðlaun. Svíar, undir stjórn íslenska þjálfarans Kristjáns Andréssonar, komust í gær í undanúrslitin á EM í Króatíu.

Svíar töpuðu sínum þriðja leik í keppninni á móti Noregi í gær en það kom ekki að sök. Svíar höfðu bestu innbyrðisstöðuna úr leikjum Svía, Króata og Noregs.

Það er athyglisvert að bera saman árangur sænska og íslenska liðsins á þessu Evrópumóti í Króatíu.

Svíar eru nefnilega komnir alla leið í undanúrslitin þrátt fyrir að vera búnir að tapa einum leik meira en íslenska landsliðið. Svo má ekki gleyma því að íslenska landsliðið vann tveggja marka sigur á Svíum í fyrsta leik liðanna á Evrópumótinu þar sem íslensku strákarnir náðu mest tíu marka forystu.





Svíar eru vissulega búnir að spila tvöfalt fleiri leiki en Ísland á mótinu (6 á móti 3) en þeir unnu aftur á móti réttu leikina. Sigurinn á Króötum í lokaleik riðlakeppninnar var á endanum leikurinn sem skilar liðinu í undanúrslitin.

Það boðar kannski ekki gott fyrir Svía að mæta Dönum í undanúrslitunum því sænska liðið hefur tapað báðum leikjum sínum á móti Norðurlandaþjóðum á EM í Króatíu, fyrst 26-24 á móti Íslandi og svo 28-25 á móti Noregi.

Tapleikir Svía á EM í Króatíu

2 marka tap á móti Íslandi (24-26)

6 marka tap á móti Frakklandi (17-23)

3 marka tap á móti Noregi (25-28)

Tapleikir Íslands á EM í Króatíu

7 marka tap á móti Króatíu (22-29)

3 marka tap á móti Serbíu (26-29)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×