Umfjöllun og viðtöl: Tindastóll - Grindavík 94-82 | Baráttusigur Tindastóls í Síkinu

Hákon Ingi Rafnsson skrifar
Vísir/Ernir
Tindastóll sigraði Grindavík 94-82 í spennandi leik í Síkinu í 15. umferð Domino´s deildarinnar. Með sigrinum heldur liðið sér í 2. sæti deildarinnar ásamt öðrum liðum, en Tindastóll er 2 stigum á eftir ÍR sem er á toppi deildarinnar núna með 24 stig. Grindavík er enn í 5-6 sæti en deilir því með Njarðvík.

Liðin byrjuðu leikin hnífjafnt en Tindastóll missti þó lykilmann af velli, Antonio Hester, sem náði sér í 2 villur strax í fyrsta leikhluta og var þess vegna skipt útaf. Í leikhlutanum var Grindavík töluvert betri en þeir voru þó klaufalegir í að klára færin sín og Stólarnir hengu í þeim allan leikhlutann. Leikhlutinn endaði 17-16 heimamönnum í vil.

Í öðrum leikhluta byrjaði Grindavík töluvert betur og kom sér í 8 stiga mun rétt um miðjan leikhlutann. Antonio Hester kom þá aftur inn á en ekki í langan tíma vegna þess að hann fékk dæmdar á sig 2 villur á stuttum tíma og var kominn með 4 villur og honum var kippt strax aftur útaf þá til að geta notað hann í 4 leikhluta. En þá komu Tindastólsmenn loks til baka og leyfðu Grindavík aðeins að skora 7 stig gegn 21 stigum þeirra seinnipart leikhlutans. Tindastóll var að vinna 44-38 í lok leikhlutans.

Nú byrjuðu heimamenn töluvert betur og komu sér í 9 stiga forystu þegar aðeins 3 mínútur voru liðnar af 3. leikhluta. Loks duttu gestirnir svo í gang og minkuðu í 3 stig og gerðu þetta aftur að jöfnum leik. Tindastóll auk þó forystuna aftur. Leikhlutinn endaði 67-60. Í fjórða leikhlutanum minnkuðu gestirnir forystu Tindastóls aftur í aðeins 1 stig en þá tók liðið loks við sér og endurheimtu forystuna og héldu henni út leikinn. Lokatölur 94-82.

Afhverju vann Tindastóll?

Stig Tindastóls dreifðust á allt liðið og allir voru líklegir til að skora. Grindavík treysti þó rosalega mikið á lykilmenn sína enda skoraði J´Nathan Bullock nærri helminginn af stigum Grindavíkur.

Tölfræði sem vakti athygli.

Þrátt fyrir að Antonio Hester spilaði aðeins 18 mínútur þá skilaði hann 20 stigum og 5 fráköstum.

Hvað gerist næst?

Tindastóll heimsækir Hauka í næstu umferð en þessi lið verða jöfn í 2 sæti deildarinnar, ef Haukar vinna sinn leik gegn Keflavík á morgun. Grindavík heimsækir Hött á Egilstöðum en Höttur vann sinn fyrsta leik í deildinni núna í kvöld.

Tindastóll-Grindavík 94-82 (17-16, 27-22, 23-22, 27-22)

Tindastóll:
Antonio Hester 20/5 fráköst, Pétur Rúnar Birgisson 19/6 fráköst/7 stoðsendingar, Sigtryggur Arnar Björnsson 18, Viðar Ágústsson 11, Hannes Ingi Másson 7, Axel Kárason 6/6 fráköst, Helgi Rafn Viggósson 6/5 fráköst/6 stoðsendingar, Helgi Freyr Margeirsson 6, Friðrik Þór Stefánsson 1, Elvar Ingi Hjartarson 0, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 0, Finnbogi Bjarnason 0.

Grindavík: J'Nathan Bullock 33/16 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 12, Dagur Kár Jónsson 8/5 stoðsendingar, Ólafur Ólafsson 8/5 fráköst, Ingvi Þór Guðmundsson 8, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 7/6 fráköst, Kristófer Breki Gylfason 3, Þorsteinn Finnbogason 3, Davíð Ingi Bustion 0, Hinrik Guðbjartsson 0, Ómar Örn Sævarsson 0, Sverrir Týr Sigurðsson 0. 

Jóhann Árni: Voru ekki nógu sterkir þegar á reyndi

Jóhann Árni Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, sagði að leikurinn hefði verið í sveiflum og að sínir menn hefðu ekki verið nógu góðir á réttu tímunum.

„Þetta var leikur allan tímann, það voru miklar sveiflur í þessu og við vorum hreinlega ekki á réttum stað í lok leiks.“

Jóhann sagði einnig að hann hafði verið nokkuð ánægður með dómgæsluna í kvöld.

„Dómgæslan var allt í lagi, hún hefur líklega oft verið verri og betri en það skipti ekki öllu máli í kvöld.“

Sigurður Gunnar: Við erum með of marga tapaða bolta

Sigurður Gunnar Þorsteinsson, leikmaður Grindavíkur, sagði að þeir væru ekki nógu góðir sóknarlega í kvöld, með of marga tapaða bolta og ekki nógu einbeittir.

„Við byrjuðum vel en töpuðum svo bara of mörgum boltum eftir það. Við vorum bara of lélegir sóknarlega fyrir þennan leik.

Pétur Rúnar: Sterkur sigur á sterku liði

Pétur Rúnar Birgisson, leikmaður Tindastóls, var ánægður með liðsfélaga sína og sagði að þessi leikur hafi sýnt hversu djúpt þeir geta farið á bekkinn.

„Þetta var sterkur sigur á sterku liði og sínir bara hvað við erum góðir sem lið. Það sýnir bara þegar Hester fer útaf og eftir það sýndum við bara hvað við getum farið djúpt á bekkinn og hvað allir geta lagt af mörkum.“

Pétur var einnig spurður út í næsta leik gegn Haukum og hvað þeir ætla að taka úr þessum leik í þann næsta.

„Við verðum bara að mæta með sömu orku og reyna að virkja allan bekkinn og liðið og spila þannig til enda.“

Israel: Við spiluðum frábærlega sem lið í kvöld.

Israel Martin, þjálfari Tindastóls, var mjög ánægður með liðið sitt í kvöld og sagði að þeir hefðu spilað skynsamlega.

„Við spiluðum frábærlega saman í kvöld þótt að þeir hefðu skorað svona 82 stig þá var þetta aðallega einn á einn færi en ég er mjög ánægður með þá og hvað þeir spiluðu skynsamlega. Við misstum Hester snemma í villuvandræði og spiluðum án hans lengi, en kom frábærlega af bekknum og skilaði sínu.“

Martin sagði einnig að það hafði ekki endilega verið slæmt að missa Hester út í dag, og að þeir væru með annað augað opið fyrir háum leikmanni í liðið.

„Það er ekki alltaf slæmt að missa Hester út vegna þess að þeir hafa líklega verið að æfa hvernig á að stoppa hann og þegar hann fer útaf þá vita þeir ekki alveg hvað á að gera. Við erum svo lágvaxið lið núna að við þurfum að hafa annað augað opið fyrir kaupum á hávöxnum leikmanni sem gæti tekið fráköstin fyrir okkur.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira