Handbolti

Cervar hættir með Króata

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Cervar er skrautlegur og skemmtilegur þjálfari.
Cervar er skrautlegur og skemmtilegur þjálfari. vísir/getty
Það varð ljóst í gærkvöldi að Króatar komast ekki í undanúrslit á EM og þjálfari liðsins, Lino Cervar, hefur nú ákveðið að stíga til hliðar á ný.

Cervar stýrði landsliði Makedóníu á HM í fyrir ári síðan en tók svo aftur við króatíska liðinu enda afar heillandi áskorun að stýra liðinu á heimavelli á EM. Þar ætlaði Króatía sér alla leið en allt kom fyrir ekki.

Frakkar skelltu Króötum í gær, 30-27, fyrir framan troðfulla höll í Zagreb. Niðurstaðan er mikil vonbrigði fyrir Króata og ekki síst Cervar sjálfan.

„Við verðum að styðja hvern þann sem tekur við liðinu. Við verðum að styðja liðið og handboltann í landinu. Okkar frábæra handboltasaga telur nú 13 verðlaun á stórmótum og sá uppgangur má ekki hætta,“ sagði hinn 67 ára gamli Cervar sem missti lykilmann sinn, Domagoj Duvnjak, í meiðsli strax í fyrsta leik EM og það hafði sitt að segja.

„Ég hef engar áhyggjur af framtíð handboltans í Króatíu og landsliðið á bjarta framtíð fyrir sér án mín.“

Óljóst er hvað Cervar gerir næst en tíma hsn hjá Króatíu er lokið. Hann náði frábærum árangri með liðið er hann þjálfaði það frá 2002 til 2010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×