Viðskipti innlent

Segja meginmarkmið að enginn slasist á Húsavík við gangsetningu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Talsvert er síðan hráefni til framleiðslu tók að berast á Bakka
Talsvert er síðan hráefni til framleiðslu tók að berast á Bakka vísir/jói k
Stjórnendur kísilvers PCC BakkiSilicon hf. boða íbúa Húsavíkur og nágrennis til fundar síðdegis í dag vegna fyrirhugaðrar gangsetningar ofna verksmiðjunnar á Bakka. Til stendur að ræsa annan ofninn í febrúar og hinn síðari í apríl.

Er það „meginmarkmið PCC BakkiSilicon að enginn slasist í gangsetningarferlinu“ segir í tilkynningu frá stjórnendunum en auk þess að umhverfisáhrif verði sem minnst og nágrannar finni fyrir sem minnstum óþægindum.

Ætla að svara spurningum bæjarbúa

„Þegar rekstur kísilversins er orðinn stöðugur ættu íbúar í nágrenninu að verða sem minnst varir við daglega starfsemi þess.“

Rúmlega hundrað starfsmenn eru í kísilverinu sem til stóð að gangsetja fyrir áramót. Fresta þurfti gangsetningu um nokkrar vikur.

Á fundinum í dag verður fjallað um gangsetningarferlið og hvers Húsvíkingar og aðrir nágrannar kísilversins geta vænst á meðan á því stendur. Þá gefst fundargestum tækifæri til þess að bera fram spurningar og ræða málin. PCC BakkiSilicon vonar að sem flestir sjái sér fært að mæta á fundinn.

Ósk United Silicon um gjaldþrot

Samkvæmt umsögn Skipulagsstofnunar um verksmiðjuna frá árinu 2013 er augljóst að mengunarefni frá verksmiðjunni muni hafa neikvæð áhrif á loftgæði í nágrenni verksmiðjunnar. Styrkur efnanna á þó að vera undir viðmiðum.

Fram hefur komið að kísilverið þurfi 66 þúsund tonn af kolum árlega til að standa undir framleiðslu á kísilmálmi.

Fyrr í vikinu óskaði United Silicon hf. eftir því að verða tekið til gjaldþrotaskipta en starfsemi kísilverksmiðju fyrirtækisins í Helguvík gekk illa þar sem ofnar verksmiðjunnar ollu lyktarmengun, vinnuslys urðu auk þess sem forstjóri og stofnandi hefur verið kærður fyrir umfangsmikinn fjárdrátt.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×