Erlent

Hátt í hálf milljón enn án rafmagns á Púertó Ríkó eftir fellibylinn í haust

Kjartan Kjartansson skrifar
Starfsmenn rafveitu Púertó Ríkó vinna hörðum höndum að því að lagfæra rafmagnslínur sem fóru í sundur í fellibylnum í september.
Starfsmenn rafveitu Púertó Ríkó vinna hörðum höndum að því að lagfæra rafmagnslínur sem fóru í sundur í fellibylnum í september. Vísir/AFP
Fjórum mánuðum eftir að fellibylurinn María olli mannskaða og eyðileggingu á Púertó Ríkó eru fleiri en 450.000 viðskiptavinir rafveitu eyjarinnar enn án rafmagns. Um 68% viðskiptavina rafveitu Púertó Ríkó hefur aðgang að rafmagni.

Bæði fyrirtæki, iðnaður og einstaklingar eru inni í tölum PREPA, rafveitu Púertó Ríkó. Ekki liggur nákvæmlega fyrir hversu margir íbúar eru án rafmagns, að því er segir í frétt CNN-fréttastöðvarinnar. PREPA segist vinna með verkfræðingum Bandaríkjahers og Almannavarna Bandaríkjanna til að koma rafmagni á til allra sem fyrst.

Það eru ekki aðeins rafmagn sem íbúa Púertó Ríkó skortir. Þúsundir manna bíða enn eftir að fá dúka sem yfirvöld hafa útdeilt sem bráðabirgðalausn þar sem þök fuku af húsum í fellibylnum sem gekk yfir eyjuna 20. september. Rúmlega þúsund manns hafast enn við í neyðarskýlum eða á hótelum á vegum Almannavarna Bandaríkjanna. Púertó Ríkó er bandarískt yfirráðasvæði.

María var öflugasti stormur sem skollið hafði á Púertó Ríkó í 85 ár.


Tengdar fréttir

Rafmagnslaust næstu mánuði

Rafveitunet Púertó Ríkó laskaðist svo mikið eftir að fellibylurinn María gekk þar yfir að eyjaskeggjar mega gera ráð fyrir rafmagnsleysi næstu mánuði




Fleiri fréttir

Sjá meira


×