Erlent

Trump hótar að hætta fjárstuðningi við Palestínumenn

Kjartan Kjartansson skrifar
Veggmynd af Trump á aðskilnaðarmúr Ísraelsmanna í Betlehem. Ákvörðun Trump um að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels lagðist illa í leiðtoga Palestínumanna.
Veggmynd af Trump á aðskilnaðarmúr Ísraelsmanna í Betlehem. Ákvörðun Trump um að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels lagðist illa í leiðtoga Palestínumanna. Vísir/AFP
Bandaríkin munu hætta að styðja Palestínumenn fjárhagslega ef þeir bera sig ekki eftir friðarumleitunum við Ísraelsmenn. Þessu hótaði Donald Trump Bandaríkjaforseti á ráðstefnu Alþjóðaefnahagsráðsins í Davos í dag. Trump telur Palestínumenn jafnframt hafa snuprað varaforseta sinn.

Leiðtogar Palestínumanna sniðgengu heimsókn Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, til Ísraels fyrr í þessum mánuði. Ástæðan var ákvörðun ríkisstjórnar Trump um að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels og flytja sendiráð Bandaríkjanna þangað.

„Þegar þeir vanvirða okkur fyrir viku með því að leyfa frábæra varaforseta okkar ekki að hitta þá og við gefum þeim hundruð milljóna dollara í aðstoð og stuðning, svakalegar upphæðir, upphæðir sem enginn skilur, þetta fé er á borðinu og þetta fé fer ekki til þeirra nema þeir setjist niður og semji um frið,“ sagði Trump eftir fund með Benjamín Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels í Davos.

Bandaríkjamenn eru stærstu einstöku bakhjarlar stofnunar Sameinuðu þjóðanna sem aðstoðar Palestínumenn. Þeir hafa þegar lýst því yfir að þeir ætli að halda eftir um helmingi framlaga sem þeir höfðu heitið stofnuninni.

Reuters-fréttastofan hefur eftir talsmanni Mahmouds Abbas, forseta Palestínu, að Bandaríkjastjórn geti ekki átt neinn þátt í friðarumleitunum þar til ákvörðunin um að viðurkenna Jerúsalem verður dregin til baka.

Nikki Haley, sendifulltrúi Bandaríkjanna við Sameinuðu þjóðirnar, sagði að bandarísk stjórnvöld ætluðu ekki að ganga á eftir forystu Palestínumanna sem skorti það sem til þarf til að ná friði í öryggisráðinu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×