Skoðun

Sterk staða – betri borg

Áslaug Friðriksdóttir skrifar
Það þarf margt að gerast í borgarmálunum á næsta kjörtímabili. Setja verður önnur mál í forgang en þau sem núverandi meirihluti hefur gert. Grunnþarfir borgarbúa og almenn þjónusta hefur mætt afgangi. Ég vil tryggja að íbúar fái mannsæmandi þjónustu á öllum aldursskeiðum, að virðing sé borin fyrir þörfum og vilja fólks. Fara þarf vel með fjármuni og sinna viðhaldi sameiginlegra eigna okkar. Málið er einfalt – borgin þarf að virka.

Á morgun ganga Sjálfstæðismenn í Reykjavík til kosninga um þá manneskju sem leiða á lista flokksins í vor. Til þess að geta tekið virkan þátt í þeim breytingum verður Sjálfstæðisflokkurinn að ná til breiðs hóps kjósenda. Það mun flokknum takast með því að taka verkefnum fagnandi og fjalla um þau á jákvæðan hátt í stað þess að gerast úrtöluflokkur og ýta verkefnum út af borðinu án skoðunar og nauðsynlegrar umræðu.

Flokkurinn á að ígrunda breytingar með opnum huga, leiða umbætur og hafa vilja til að nýta sér allar þær hugmyndir sem skilað geta borgarbúum betri lífsgæðum. Og nóg er til af þeim. Mýmörg dæmi eru um hvernig aðrar borgir hafa náð betri árangri á mörgum sviðum, bæði í gæðum þjónustunnar og betri rekstri.

Rödd sem höfðar til fleiri

Verkefnin eru spennandi og áskoranirnar stórar. Eitt af stóru verkefnunum verður að innleiða breytingar á þjónustu þannig að hún sé veitt á forsendum notenda en ekki á forsendum þeirra sem veita hana. Valfrelsi fólks verður að vera til staðar, annars þróast þjónustan ekki eftir þörfum þeirra.

Til þess að geta leitt þessar mikilvægu breytingar verður Sjálfstæðisflokkurinn að komast í þá stöðu að mynda meirihluta. Hann þarf að hafa rödd sem höfðar til breiðs hóps og betur til kvenna og yngri kjósenda. Skynsemi og víðsýni fer flokknum betur en úrtölur. Fyrir þessu vil ég standa og býð mig fram til að ganga í verkefnið.

Höfundur er frambjóðandi í leiðtogakjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×