Innlent

Jómfrú stal stíl forsætisráðherra

Þórarinn Þórarinsson skrifar
Una Hildardóttir, varaþingmaður VG, í pontu Alþingis í gær.
Una Hildardóttir, varaþingmaður VG, í pontu Alþingis í gær.
Una Hildardóttir, varaþingmaður Vinstri grænna, flutti jómfrúrræðu sína á Alþingi í peysu sem kom þingheimi kunnuglega fyrir sjónir þar sem Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og flokkssystir Unu, hefur staðið í ræðustól í nákvæmlega eins flík.

Una segir um tilviljun að ræða og fánalituð peysan sé ekki nýr einkennisbúningur VG á þingi og þær Katrín deili heldur ekki sömu peysunni.

„Þetta eru tvær peysur. Þetta er ekki alveg svo gott að ég hafi þurft að fá lánaða peysu hjá Katrínu,“ segir Una sem ákvað fyrir allnokkru að halda sína fyrstu þingræðu í peysunni.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, einnig í peysunni Hilda frá Geysi.vísir/ernir
„Ég frétti fyrir áramót að ég myndi fara inn á þing á næstunni. Ég hafði séð þessa peysu í búðarglugga fyrir löngu og ákvað þá að vera í henni þegar ég flytti jómfrúrræðu mína. Þessi jómfrúrræða var mjög góð afsökun til að fara í Geysi og kaupa mér nýja peysu.“

Una segir peysuna síðan hafa hangið og beðið eftir stóra deginum. Í millitíðinni fóru henni að berast myndir af Katrínu í eins peysu, meðal annars frá móður sinni og vinum.

„Ég hugsaði mig því vel og lengi um hvort ég ætti að fara og skipta henni og fá nýja en fyrst ég var löngu búin að ákveða þetta lét ég slag standa.“

Hér fyrir neðan má horfa á upptöku af ræðu Unu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×