Handbolti

Svíar í úrslit eftir framlengingu

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Svíar geta orðið Evrópumeistarar
Svíar geta orðið Evrópumeistarar vísir/epa
Svíar höfðu betur gegn Dönum í seinni undanúrslitaviðureign Evrópumótsins í handbolta í kvöld eftir framlengingu í hörku leik í Zagreb.

Lærisveinar Kristjáns Andréssonar byrjuðu leikinn mun betur og komust í fjögurra marka forystu þegar fyrri hálfleikur var rétt hálfnaður og náðu mest fimm marka forystu í hálfleiknum. Danir náðu þó aðeins að klóra í bakkann og staðan var 14-16 í hálfleik.

Svíar náðu aftur upp forskoti í seinni hálfleik en Danir gáfust aldrei upp og komu til baka. Það var tveggja marka munur þegar tæpar tvær mínútur voru eftir af leiknum, 26-28. Danir náðu að minnka muninn í eitt mark þegar 37 sekúndur voru eftir með marki frá Lasse Svan. Jerry Tolbring skaut í stöngina hinu megin þegar 6 sekúndur voru eftir og Lasse Svan skoraði aftur og tryggði Dönum framlengingu.

Framan af framlengingunni skiptust liðin á að skora, Svíar þó alltaf skrefi á undan. Þegar þrjár mínútur voru eftir náði Linus Arnesson að stela boltanum af Dönum og Niclas Ekberg skoraði úr hraðaupphlauipi og kom Svíum tveimur mörkum yfir.

Danir náðu ekki að vinna það til baka, lokatölur urðu 34-35 og Kristján Andrésson fer með sína menn í úrslitaleikinn þar sem þeir mæta Spánverjum. Danir spila við Frakka um þriðja sætið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×