Sport

Wozniacki vann loksins sitt fyrsta risamót

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Caroline Wozniacki með sigurlaunin sín í morgun.
Caroline Wozniacki með sigurlaunin sín í morgun. Vísir/Getty
Hin danska Caroline Wozniacki vann í morgun sinn fyrsta sigur á risamóti í tennis er hún bar sigur úr býtum á Opna ástralska mótinu. Um leið tryggði hún sér efsta sæti heimslistans í tennis.

Wozniacki hafði betur gegn Simona Halep frá Rúmeníu í úrslitaviðureign mótsins. Hún vann fyrsta settið eftir upphækkun, 7-6, en Halep svaraði fyrir sig og vann það næsta, 6-3.

Taugar Wozniacki reyndust þó sterkari undir lokin og fagnaði Daninn sigri, 6-4, í oddasettinu. Þetta var í 43. sinn sem hún tekur þátt í risamóti í tennis en hennar fyrsti sigur, sem fyrr segir.

Uppgangur hennar hefur þar að auki verið mikill undanfarna mánuði en fyrir tæpu einu og hálfu ári síðan var hún dottin niður í 74. sæti heimslistans í tennis. Hún hefur þó áður verið í efsta sæti heimslistans og komst í sinn fyrsta úrslitaleik á risamóti fyrir níu árum síðan.

„Mig hefur dreymt um þetta augnablik í svo langan tíma. Og nú í dag hefur draumurinn loksins ræst,“ sagði hún eftir sigurinn í morgun.

Wozniacki og Halep munu hafa sætaskipti þegar sú fyrrnefnda tekur efsta sæti heimslistans af Halep, sem fellur niður í annað sætið. Halep hefur enn ekki afrekað að vinna risamótstitil.

Wozniacki er fyrsti danski tennisleikarinn sem vinnur risamót í tennis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×