Sport

Konur fylgja karlkyns keppendum í pílu ekki lengur upp á svið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Keppni í pílu er vinsælt sjónvarpsefni í Bretlandi og víðar í Evrópu en ákveðið hefur verið að láta af umdeildri iðju sem fylgt hefur keppnum lengi.

Konur hafa lengi fylgt karlkyns keppendum upp á svið á mótum sem hafa verið sýnd í sjónvarpi en nú hefur verið ákveðið að hætta því. Var það gert að óskum sjónvarpsrétthafa en BBC greinir frá.

„Við tökum alla þætti keppninnar og viðburða okkar til endurskoðunar regluluega og þetta skref hefur verið tekið eftir viðræður við sjónvarpsrétthafa,“ sagði talsmaður skipuleggjanda keppnanna, Professional Darts Corporation.

Michael van Gerwen er einn fremsti keppandi sögunnar í íþróttinni og hann hefur áður lýst þeirri skoðun sinni að það beri að láta af þessari iðju.

Þó eru ekki allir sammála um það og ganga nú undirskriftalistar um að hætt verði við ákvörðunina. Raymond van Barneveld, fyrrum heimsmeistari í pílu, styður þann málstað.

Píla er ekki eina íþróttin þar sem konur, oftast fáklæddar, koma við sögu með svipuðum hætti. Þær eru algeng sjón í UFC og hnefaleikum, hjólreiðum sem og akstursíþróttum. Eigendur Formúlu 1 hafa áður sagt að þeir séu nú að íhuga að breyta því fyrirkomulagi




Fleiri fréttir

Sjá meira


×