Körfubolti

Curry með 49 stig í sigri gegn Boston Celtics

Dagur Lárusson skrifar
Curry átti stórleik.
Curry átti stórleik. vísir/getty
Stephen Curry átti hreint út sagt magnaðan leik fyrir sína menn í sigri gegn Boston Celtics í nótt en hann skoraði 49 stig og þrettán þeirra komu á síðust tveim mínútum leiksins.

Leikurinn var jafn frá upphafi til enda en það voru gestirnir frá Boston sem byrjuðu þó leikinn betur og voru þeir yfir 37-27 eftir fyrsta 1. leikhluta. Eftir það fór Golden State að minnka forystuna og í hálfleik var staðan 54-50 fyrir Boston Celtics.

Golden State byrjaði seinni hálfleikinn af miklum krafti og skoraði 30 stig í 3.leikhluta á meðan Boston skoraði aðeins 19 og því var mikil spenna á lokamínútunum. Stephen Curry fór fyrir sínu liði allan leikinn en þá sérstaklega undir lokin þar sem hann skoraði 13 stig á síðustu 2 mínútum leiksins og tryggði liði sínu að lokum nauman sigur 109-105.

Curry var stigahæstur í liði Golden State en hann skoraði samtals 8 þriggja stiga körfur í leiknum. Stigahæstur í liði Boston Celtics var Kyrie Irving með 37 stig.

Mikið var rætt um einvígið milli Curry og Irving í nótt en þeir þóttu báðir fara á kostum. Þeir fóru báðir fögrum orðum um hvorn annan.

„Irving er frábær leikmaður. Hvernig hann sá leikinn fyrir sér í kvöld var frekar ótrúlegt,“ sagði Curry.

„Mér fannst við verjast vel í leiknum en hann átti bara mikið af skotum sem var erfitt að verjast sem gaf hans liði mikið af sjálfstrausti.“

Irving sagði að hans lið hafi spilað vel en Curry hafi einfaldlega spilað of vel.

„Við spiluðum vel og við héldum okkur við okkar leikplan en Curry var einfaldlega of góður í kvöld, hann var magnaður,“ sagði Irving.

Bæði lið eru á toppi sinnar deildar, Boston Celtics á toppnum í Austurdeildinni og Golden State á toppnum í Vesturdeildinni en margir búast við því að það verði þessi tvö lið sem munu eigast við í úrslitunum í vor.

Úrslit næturinnar:

Pistons 108-121 Thunder

Pacers 114-112 Magic

Hawks 104-129 Wizards

Heat 95-91 Hornets

Warriors 109-105 Celtics

Timberwolves 111-97 Nets

Nuggets 91-89 Mavericks

Hér fyrir neðan má sjá brot úr leik Golden State Warriors og Boston Celtics.

NBA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×