Viðskipti innlent

Flugliðar WOW sendir í launalaust leyfi

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Samkvæmt Svönu Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúa WOW, náði aðgerðin ekki til fastráðinna flugliða.
Samkvæmt Svönu Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúa WOW, náði aðgerðin ekki til fastráðinna flugliða. Wow Air
WOW air hefur sent hóp flugliða í tímabundið launalaust leyfi í vetur. Svana Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW, segir að brugðið sé á þetta ráð til að bregðast við árstíðabundnum sveiflum í rekstri flugfélagsins. Sé þetta gert til að forðast hópuppsagnir.

„Rétt eins og hjá all flestum evrópskum flugfélögum þá er meira flug yfir sumarið hjá WOW air en um vetur. WOW air hefur brugðist við þessum árstíðabundnu sveiflum með því að skipta vinnu á milli flugliða yfir veturinn frekar en að segja upp stórum hóp flugliða,“ segir Svana í skriflegu svari við fyrirspurn Vísis.

„WOW air er ekki undanskilið öðrum fyrirtækjum sem glíma við árstíðabundin rekstur að reyna eftir fremsta megni að hagræða þegar minna er að gera.“

Ekki náð til fastráðinna flugliða

Svana segir að launalausu leyfin hafi ekki náð til fastráðinna flugliða heldur einungis til flugliða með tímabundna ráðningu og að með þessum aðgerðum hafi verið hægt að gefa fleirum tækifæri til að vinna stóran hluta vetrar.

Ekki fengust svör við fyrirspurn um hversu margra flugliða aðgerðin náði til.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, sagðist í samtali við Vísi ekki kannast við sambærilegar aðgerðir hjá flugfélaginu. Icelandair ráði annars vegar sumarstarfsfólk sem starfi mest milli maí og september ár hvert og hins vegar fastráðna flugliða sem starfi allt árið. Eitthvað sé um hlutastarfsmenn hjá Icelandair en það fari minnkandi.

Hins vegar hefur Icelandair gripið til svipaðra aðgerða varðandi flugmenn. Síðasta sumar var 115 flugmönnum sagt upp og voru 70 flugstjórar færðir niður í stöðu flugmanns yfir veturinn.

Þá sagði Guðjón uppsagnirnar vera hluta af reglulegri starfsemi Icelandair, að flugmenn væru ráðnir inn á vorin og síðan sagt upp á haustin. Í ágúst voru svo uppsagnir um 50 flugmanna dregnar til baka.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×