Erlent

Makedónar gefa flugvelli nýtt nafn

Atli Ísleifsson skrifar
Grikkir hafa verið óánægðir með að Makedónar hafi reynt að eigna sér persónur og tákn sem ætíð hafa verið talin hluti af arfleifð Grikkja.
Grikkir hafa verið óánægðir með að Makedónar hafi reynt að eigna sér persónur og tákn sem ætíð hafa verið talin hluti af arfleifð Grikkja. Vísir/Getty
Stjórnvöld í Makedóníu hafa ákveðið að gefa einum af flugvöllum landsins nýtt nafn til að liðka fyrir lausn í langvinnri deilu Makedóna og Grikkja.

Zoran Zaev, forsætisráðherra Makedóníu, greindi frá því í síðustu viku að Flugvöllur Alexanders mikla í höfuðborginni Skopje muni fá nýtt nafn. Enn hefur þó ekki verið tekið ákvörðun um hvert nýtt nafn vallarins verður.

Makedónar munu sömuleiðis endurnefna hraðbrautina í landinu sem kennd er við Alexander mikla. Hraðbrautin nær að landamærum Grikklands og mun hún framvegis nefnast Vegur vináttunnar, segir Zaev.

Allt frá því að Makedónía lýsti yfir sjálfstæði frá gömlu Júgóslavíu árið 1991 hefur nafnið á landinu farið fyrir brjóstið á Grikkjum sem vilja meina að Makedónía nái einungis til samnefnds héraðs í Grikklandi.

Sömuleiðis hafa Grikkir verið óánægðir með að Makedónar hafi reynt að eigna sér persónur og tákn sem ætíð hafa verið talin hluti af arfleifð Grikkja.

Zaev greindi frá ákvörðuninni í kjölfar fundar með gríska forsætisráðherranum Alexis Tsipras í Davos í Sviss. Væri þetta skýrt merki um að Makedónar væru staðráðnir í að finna lausn á deilunni, sem hefur einnig tafið aðildarferli Makedóna að Evrópusambandinu og Atlantshafsbandalaginu (NATO).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×