Viðskipti innlent

Eigendur Atlantsolíu setja félagið í formlegt söluferli

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Atlantsolía rekur 19 sjálfsafgreiðslustöðvar á landinu öllu.
Atlantsolía rekur 19 sjálfsafgreiðslustöðvar á landinu öllu. Vísir/Anton Brink
Eigendur olíufélagsins Atlantsolíu, sem rekur nítján sjálfsafgreiðslustöðvar á landinu öllu, hafa sett félagið í formlegt söluferli. Samkvæmt heimildum Markaðarins hafa nokkrir fjárfestar sýnt félaginu áhuga.

Guðrún Ragna Garðarsdóttir, framkvæmdastjóri Atlantsolíu, staðfestir í samtali við Markaðinn að félagið hafi verið sett í formlegt söluferli. Vonast hún til þess að málin skýrist frekar í næsta mánuði. Að öðru leyti segist hún ekki geta tjáð sig um söluferlið á þessari stundu. Ráðgjafarfyrirtækið Deloitte hefur umsjón með ferlinu.

Eigendur Atlantsolíu, sem er minnsta olíufélagið á íslenska markaðinum, eru Guðmundur Kjærne­sted og Bandaríkjamaðurinn Brandon Charles Rose. Atlantsolía var stofnuð sumarið 2002 og var fyrsta bensínstöð félagsins opnuð ári síðar.

Greint var frá því í Markaðinum í október á síðasta ári að eigendurnir könnuðu mögulega sölu á öllu hlutafé félagsins. Það kæmi til vegna áhuga sem innlendir fjárfestar hefðu sýnt því.

Hagnaður Atlantsolíu árið 2016 nam rúmlega 203 milljónum króna borið saman við hagnað upp á 50 milljónir árið áður. Heildarvelta félagsins dróst hins vegar saman um 680 milljónir og var samtals 4.638 milljónir í fyrra.



Fréttin birtist fyrst í Markaðinum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og fjármál.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×