Erlent

MH370: Gætu fengið rúma sjö milljarða ef brakið finnst

Atli Ísleifsson skrifar
Forsvarsmenn Ocean Infinity og fulltrúar malasískra yfirvalda kynntu fyrirkomulagið í gær.
Forsvarsmenn Ocean Infinity og fulltrúar malasískra yfirvalda kynntu fyrirkomulagið í gær. Vísir/AFP
Bandaríska fyrirtækið Ocean Infinity gæti fengið allt að 70 milljónir Bandaríkadala, um 7,3 milljarða króna, frá malasískum yfirvöldum, takist því að hafa uppi á braki MH370, flugvélar Malaysia Airlines sem hvarf í Indlandshafi í mars 2014. 239 farþegar voru um borð í vélinni þegar hún fórst.

CNN  greinir frá því að starfsmenn fyrirtækisins og fulltrúar malasískra yfirvalda hafi náð samkomulagi um að greiðsla til fyrirtækisins myndi einungis berast ef tækist að finna brakið. Takist það ekki mun engin greiðsla berast.

Ocean Infinity hefur tekið norska rannsóknarskipið Seabed Constructor á leigu sem er nú á leið á hafsvæði í Indlandshafi með átta smærri kafbáta sem notaðir verða við leitina.

Samkvæmt samkomulaginu mun fyrirtækið byrja á því að leita á 25 þúsund ferkílómetra svæði. Takist fyrirtækinu að finna brakið við leit á fyrstu fimm þúsund ferkílómetrunum fær fyrirtækið greiðslu upp á 20 milljónir Bandaríkjadala. Finnist brakið lengra í burtu verður greiðslan hærri, en að hámarki 70 milljónir Bandaríkjadala, eða 7,3 milljarðar króna.

Leit Ocean Infinity hefst um miðjan mánuðinn og mun standa í níutíu daga. Leit að braki vélarinnar, sem var af gerðinni Boeing 777, hefur verið árangurslaus til þessa, en hlutar úr brakinu hefur skolað á land á austurströnd Afríku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×