Innlent

Vilhjálmur Bjarnason fer fram í leiðtogakjöri Sjálfstæðisflokksins

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Vilhjálmur Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins á árunum 2013 til 2017.
Vilhjálmur Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins á árunum 2013 til 2017. Vísir/Eyþór
Vilhjálmur Bjarnason, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins og lektor, ætlar að bjóða sig fram í leiðtogakjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Þetta kemur fram í tilkynningu frá honum.

Í tilkynningunni segir að Vilhjálmur hafi lokið prófi í hagfræði frá Háskóla Íslands 1977 og framhaldsnámi í viðskiptafræði frá Rutgers University í Newark í New jersey 1997.

Vilhjálmur starfaði hjá útvegsbanka Íslands, meðal annars útibústjóri bankans í Vestmannaeyjum árin 1980 til 1987.

Þá starfaði hann við kennslu frá 1989 til 2013, meðal annars í Iðnskólanum í Reykjavík og Háskóla Íslands, viðskiptafræðideild.

Vilhjálmur var alþingismaður fyrir Suðvesturkjördæmi frá 2013 til 2017.

Vilhjálmur er sá fjórði til að gefa kost á sér í leiðtogakjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík en áður höfðu borgarfulltrúarnir Kjartan Magnússon og Áslaug Friðriksdóttir tilkynnt að þau ætli fram. Þá tilkynnti Eyþór Arnalds, einn af eigendum Morgunblaðsins, í gær að hann gæfi kost á sér. Frestur til að bjóða sig fram rennur út klukkan 16 í dag.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×