Lífið

Árlegur djúskúr Nova hefur reynst starfsmönnum erfiður

Birgir Olgeirsson skrifar
Liv Bergþórsdóttir, forstjóri Nova, var á djúskúrnum í fyrra en tekur grænmetismánuð í ár.
Liv Bergþórsdóttir, forstjóri Nova, var á djúskúrnum í fyrra en tekur grænmetismánuð í ár. Vísir
Starfsmenn fjarskiptafyrirtækisins Nova eru nú á lokadegi djúskúrs sem hefur ekki gengið áfallalaust fyrir sig. Þegar einhver fer á djúskúr drekkur hann aðeins safa yfir daginn og neytir því ekki fastrar fæðu.

Rithöfundurinn Hallgrímur Helgason greindi í gær frá samskiptum sínum við tvo unga starfsmenn Nova sem hann hafði ekki fengið neina úrlausn hjá á sínum málum.

Á leið sinni út úr þjónustuverinu vatt sér upp að honum hressileg stúlka sem bauðst til aðstoða Hallgrím og fékk hann líka þessa fínustu þjónustu. Hallgrímur segist hafa spurt stúlkuna hvernig stæði á því að þessir piltar hefðu ekki getað aðstoðað hann. ​

Stúlkan greindi Hallgrími frá því að þeir væru á djúskúr fyrirtækisins og næðu vart að hugsa heila hugsun fyrir svengd.

Hallgrímur greindi frá málinu á Twitter en Nova brást við því með því að senda skáldinu djúskúrinn heim að dyrum í gær en pakkanum fylgdi sú skipun að Hallgrímur mætti alls ekki fóðra sendilinn.

Rithöfundurinn greindi frá því í dag að  hann hefði byrjað á kúrnum í gær og litist nokkuð vel á hann. Segist hann ætla að vera á kúrnum í þrjá daga og að hann finndi strax mun á sér og grínaðist með að honum litist hreinlega vel á Eyþór Arnalds sem oddvita á lista Sjálfstæðismanna fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor.

Styttu kúrinn í ár af fenginni reynslu

Liv Bergþórsdóttir, forstjóri Nova, segir í samtali við Vísi að Nova hafi boðið  starfsmönnum sínum upp á þennan djúskúr í janúar síðastliðin þrjú ár.

„Það er fín byrjun á árinu að taka smá hreinsun,“ segir Liv en fyrstu tvö skiptin voru starfsmennirnir á þessum djúskúr í heila vinnuviku en af fenginni reynslu var ákveðið að stytta kúrinn niður í þrjá daga í ár.

„Þetta hefur reynst starfsfólkinu erfitt þannig að við tökum þrjá daga í ár en ekki fimm,“ segir Lvi.

Forstjórinn tekur grænmetismánuð

Hún segir starfsfólkið fá senda þrjá poka af djús á mánudegi sem þeir drekka yfir daginn. Um er að ræða blöndu af allskyns söfum en heilt yfir mega starfsmennirnir drekka átta slíka drykki á dag og þurfa auk þess að halda sig frá kaffi og víni á meðan kúrnum stendur.

Liv segist hafa tekið þátt í þessum lúr í fyrra en ekki í ár. „Ég held auðvitað að þetta geti gert fólki gott en ég fer frekar í grænmetismánuð frekar en að djúsa,“ segir Liv.

65 af 140 starfsmönnum Nova taka þátt í þessum kúr í ár en Liv segir fólk fara misvel út úr djúskúrnum.

„Margir hafa ekki úthald í þrjá daga en langflestir komast í gengum þetta,“ segir Liv. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×