Lífið

Galdrastafirnir sáðu fræjum

Hjónin Kristín Edda og Oddur Helgi stofnuðu Reykjavik Heritage ásamt vinahjónum sínum. MYND/ARON BRINK
Hjónin Kristín Edda og Oddur Helgi stofnuðu Reykjavik Heritage ásamt vinahjónum sínum. MYND/ARON BRINK

Reykjavik Heritage var stofnað fyrir rúmlega ári og einblínir á hönnun og framleiðslu á litfögrum og skemmtilegum sokkum sem seldir eru í sérverslunum hér á landi. Það eru hjónin Kristín Edda Sigurðardóttir sjónfræðingur og Oddur Helgi Guðmundsson vefhönnuður sem standa á bak við fyrirtækið auk þeirra Sigþórs Hilmars Guðmundssonar, bróður Odds, og konu hans, Lindu Sverrisdóttur. Sigþór og Linda eru búsett erlendis og koma lítið að daglegum rekstri fyrirtækisins en öll fjögur deila þau miklum áhuga á sokkum.

Fallegir litir og mynstur einkenna sokkana.

Stærri markaður

Hugmyndin að fyrirtækinu kviknaði fyrir um þremur árum í fjölskylduboði segir Kristín, þar sem verið var að ræða galdrastafina og þýðingu þeirra. „Þar nefnir mágur minn að tilvalið væri að prenta galdrastafinn Vegvísi á sokka þar sem merking hans felur í sér að sá sem ber hann muni aldrei villast af leið í stormi eða í slæmu veðri. Það má finna skemmtilega sokka víða erlendis en okkur fannst vanta líflega sokka á markaðinn frá íslenskum aðilum. Aukinn ferðamannastraumur hefur auk þess stækkað markaðinn og þannig fannst okkur tilvalið að reyna að búa til vöru sem gæti bæði gengið fyrir Íslendinga og erlenda ferðamenn.“ Í framhaldinu hófust þau handa við útreikninga, leit að hugsanlegum framleiðendum og seljendum og byrjuðu að kasta fram hugmyndum um hönnun á sokkum. Eftir smá forvinnu var Reykjavik Heritage stofnað í lok árs 2016.

Áhersla á gæði

Frá upphafi var lagt upp með að framleiða gæðasokka segir Oddur. „Eftir nokkra leit vorum við svo heppin að finna traustan framleiðanda í Svíþjóð sem framleiðir eftir ströngustu gæðastöðlum. Við skynjuðum það í upphafi að þeir höfðu nú ekki mikla trú á okkur en urðu svo hissa eftir því sem leið á árið 2017 og við héldum áfram að panta fleiri og fleiri sokka ásamt því að bæta við nýjum tegundum.“

Hann segir markmiðið alltaf hafa verið að höfða til sem flestra með litum og mynstrum. „Við hönnun höfum við notað tákn og mynstur með tengingu við Ísland. Sokkunum er skipt í tvær vörulínur, annars vegar Ísland þar sem við erum með fimm tegundir og hins vegar galdrastafi þar sem við erum með átta tegundir. Hver sokkur er kynntur á umbúðunum með stuttum hnitmiðuðum fróðleik.“

Sokkar fyrir alla, konur, karla og börn.

Góðar viðtökur

Þau segja hópinn vera frekar jarðbundinn og því hafi viðtökurnar komið þeim skemmtilega á óvart. „Söluaðilar hafa verið afar móttækilegir og eru sokkarnir nú seldir víða. Hingað til hafa erlendir ferðamenn helst keypt sokkana og hafa margir þeirra haft samband við okkur þegar heim er komið af því þeir sjá eftir því að hafa ekki keypt fleiri pör. Við erum snögg að redda svoleiðis lúxusvandamálum og sendum þeim fleiri pör.“

Framundan er að vinna í að stækka sölunetið bæði hér heima og vonandi erlendis. „Við erum að vinna með alls kyns hugmyndir að litum og mynstrum, allt eftir straumum og stefnum. Einnig erum við að skoða með hvaða hætti er hægt að bjóða söluaðilum sérhönnun en slíkt væri tilvalið fyrir aðila sem eingöngu vilja selja undir eigin merkjum. Þannig að við erum bara bjartsýn á árið 2018. Helst myndum við vilja sjá að fánasokkurinn okkar væri skyldueign allra íslenskra þingmanna og embættismanna en slíkt myndi gefa lífinu örlítið meiri lit.“

Alla sokkana má skoða á reykjavikheritage.com, á Instagram og facebook.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.