Innlent

Lægðin veldur usla síðdegis

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ferðamenn gætu þurft að halda sér fast seinni partinn.
Ferðamenn gætu þurft að halda sér fast seinni partinn. Vísir/ernir

Það mun rjúka upp í suðaustanstorm á Suðvesturlandi, eða 18 til 25 m/s, síðdegis í dag. Appelsínugul viðvörun er í gildi fyrir þetta svæði, sem og á Austfjörðum og Suðausturlandi en gul viðvörun fyrir önnur landsvæði. 

Á höfuðborgarsvæðinu má þannig gera ráð fyrir að samgöngur raskist og hætt er við foki á lausamunum. Búast má við mjög snörpum vindhviðum við fjöll, til dæmis á Kjalarnesi og við Hafnarfjall.

Á Austurlandi gerir Veðurstofan ráð fyrir mikilli rigningu og talsverðum vatnavöxtum í ám og lækjum sem gætu raskað samgöngum.

Að sama skapi fer líka að rigna og hlýna í veðri. „Ef við reynum að finna eitthvað jákvætt við veðurspá dagsins, þá má nefna að hlýindin í dag og á morgun ættu víða að vinna bug á hálkunni,“ segir jákvæður veðurfræðingur Veðurstofunnar. Þannig má til að mynda gera ráð fyrir allt að 12 stiga hita á morgun.

Það dregur svo hratt úr vindi suðvestanlands í kvöld en hvessir þá norðan- og austanlands, með appelsínugulri viðvörun. Svo fer að lægja á morgun. Spáð er stormi á öllum 17 spásvæðum fyrir mið og djúp umhverfis allt landið.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag:
Sunnan og suðaustan 18-23 m/s, en hægari vestanlands. Víða rigning, mikil suðaustantil á landinu. Hiti 4 til 12 stig, hlýjast á Norðausturlandi. Snýst í suðvestan 13-18 vestanlands um kvöldið með skúrum eða slydduéljum og kólnandi veðri og fer þá að draga úr rigningu á Suðausturlandi.

Á laugardag:
Suðvestan og sunnan 10-18 og skúrir eða él, en léttskýjað á norðaustanverðu landinu. Slydda eða rigning á Suður- og Vesturlandi um kvöldið. Hiti 0 til 4 stig.

Á sunnudag:
Hvöss suðvestanátt með slyddu eða snjókomu og síðar éljum, en léttir til austanlands síðdegis. Kólnandi veður.

Á mánudag, þriðjudag og miðvikudag:
Norðvestlæg átt og snjókoma eða él norðantil á landinu, annars úrkomulítið. Frost 2 til 10 stigAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.