Innlent

Hálka og hálkublettir víða um land

Atli Ísleifsson skrifar
Akstursskilyrði eru víða varasöm í dag.
Akstursskilyrði eru víða varasöm í dag. Vísir/gva

Hálka og hálkublettir eru nú víða um land. Hálka er á Hellisheiði og í Þrengslum og þá er hálka eða snjóþekja mjög víða á Suðurlandi. Flughált er á Rangárvallavegi og hálkublettir á Reykjanesbraut og Grindavíkurvegi.

Í tilkynningu frá Vegagerðinni kemur fram að á Vesturlandi og Vestfjörðum sé hálka eða hálkublettir á flestum leiðum.

„Víða er greiðfært á Norðurlandi vestra  en þó er hálka eða hálkublettir á nokkrum leiðum. Á Norðausturlandi er heldur meiri hálka og flughált í Reykjahverfi.

Á Austurlandi er hálka eða hálkublettir á flestum leiðum. Hálka er einnig á Suðausturlandi og flughálka milli Hvalness og Jökulárlóns á Breiðamerkursandi.“

Appelsínugul viðvörun
Gefin hefur verið úr appelsínugul viðvörun á Suðvesturlandi, Suðausturlandi og Austfjörðum í dag, en gul viðvörun í öðrum landshlutum.

„Í nýjustu spám er lítið eitt dregið úr mestu veðurhæð suðvestanlands, engu að síður er spáð stormi með slagveðursrigningu og hviðum allt að 35 m/s á Reykjanesbraut, Kjalarnesi og undir Eyjafjöllum. Hvessir nokkuð snögglega upp úr kl.15 og veður nær hámarki suðvestanlands í skamma stund laust fyrir kl. 18 á meðan lægðin fer hjá. 35-40 m/s undir Hafnarfjalli á milli kl. 17 og 19. Yfir Hellisheiði fylgir bleytuhríð og varasöm akstursskilyrði síðdegis,“ segir í athugasemd frá veðurfræðingi sem fylgir með tilkynningunni frá Vegagerðinni.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.