Lífið

Eyddi tveimur sumrum í vita að lesa þjóðsögurnar

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Nýjasta plata Snorra er algjört ástríðuverkefni og mögulega byrjunin á epískum þríleik.
Nýjasta plata Snorra er algjört ástríðuverkefni og mögulega byrjunin á epískum þríleik. Fréttablaðið/Vilhelm

Rétt í tæka tíð fyrir jól sendi Snorri Helgason frá sér plötuna Margt býr í þokunni, tíu lög sem Snorri byggir á íslensku þjóðsögunum. Upphaflega hafði Snorri ætlað sér að senda plötuna frá sér á milli jóla og nýárs, sem að hans sögn hefði verið mjög pirrandi – enda misst af jólatörninni, en platan kom óvænt í hús tveimur dögum fyrir jól og náði því að enda í nokkrum jólapökkum. Um er að ræða sérstaklega glæsilega vínyl-útgáfu, eins og er farið að tíðkast æ oftar hjá íslensku tónlistarfólki.

Hvers vegna þjóðsögurnar?

„Byrjunin á þessu var í raun þegar ég var framkvæmdastjóri Reykjavík Folk Festival á sínum tíma. Hluti af því var að fara í viðtöl og svona og þar áttaði ég mig á því að ég þekkti ekkert íslenska þjóðlagatónlist – ég þekkti ekkert nema Krummi svaf í klettagjá og eitthvað svona „basic.“ Mér fannst það svolítið asnalegt svo ég ákvað að lesa mér til um þjóðlagatónlist. Ég tengdi ekkert svakalega við hana, en sögurnar tengdi ég meira við.

Ég var akkúrat á leiðinni til Lovísu, Lay Low, um þetta leyti – við höfðum oft talað saman um að hittast og búa saman til músík; það eru ekkert svo margir sem eru svona „folk/country“ perrar hérna á landinu – við vorum alltaf að hittast á djamminu og vera bara „við verðum að fara að gera eitthvað“,“ segir Snorri og túlkar drukkna rödd með ágætis leikrænum tilþrifum, „svo létum við bara verða af því – ég fór og var hjá henni í tvo daga að semja. Ég var með smá áhyggjur því að ég hef aldrei samið svona með einhverjum öðrum, en var einmitt um þetta leyti að lesa þjóðsögurnar.“

Snorri tók með sér eina skrítna þjóðsögu til að nota sem grunn. Þau sömdu texta og úr varð lagið Selurinn sem má einmitt finna á plötunni og Lay Low syngur í. Þarna kviknaði áhuginn hjá Snorra og úr varð þetta ástríðuverkefni sem Snorri átti eftir að grúska í næstu fjögur árin.

„Mestur tími fór í að rannsaka og lesa. Þetta er svo ótrúlega mikið af efni og ég byrjaði að safna að mér bókum þegar ég fékk þess hugmynd – síðan áttaði ég mig á því hvað þetta væri ógeðslega mikið verk.“

Eftir að hafa áttað sig á umfangi verksins og því að það væri ekki nokkur leið að komast yfir efnið meðfram öðrum verkefnum hélt Snorri út í Galtarvita með stærðar bunka af bókum og listamannalaun í farteskinu. Í vitanum er ekkert símasamband í boði og ekki mikil von á óvæntum gestum, enda þarf bát til að koma sér út í vitann. Þarna stúderaði hann þjóðsögur í ró og næði í tvö sumur í röð með fræðimannsgleraugun á nefinu og „folkaði“ eiginlega alveg yfir sig.

„Í raun og veru þó ég væri að lesa í margar vikur í senn í Galtarvita er ég bara rétt búinn að dýfa tánum í þennan arf, það er svo mikið efni til. Ég fann þessar tíu sögur sem ég samdi við, en það er alveg miklu, miklu meira eftir.“

Þannig að það má búast við meira efni frá þér?

„Ég held það. Er þetta ekki alveg týpísk trílógíupæling? Þetta gæti orðið gott sem þríleikur. Ég hugsa að ég kæli þetta samt aðeins núna svo ég verði ekki geðveikur – og kem svo aftur að þessu eftir ár eða svo.“

En það er ekki aðeins persónuleg ástríða sem keyrir Snorra áfram í þessu grúski – hann telur verkefnið visst form á varðveislu þjóðargersema.

„Þessi þjóðsagnaarfur, þessi pæling, það þarf að halda þessu við. Það er einhver sem þarf að kíkja á þetta og gera eitthvað með þetta með reglulegu millibili. Eftir því sem tíminn líður og þjóðfélagið þróast verða til fleiri sjónarhorn á þennan arf. Ég, sem er fæddur árið 1984, sé eitthvað annað sem mér finnst áhugavert, einhvern annan vinkil en maður fæddur 1954. Það er það sem mér finnst svo spennandi við þjóðsagnaarfinn – hann er lifandi, en það þarf einhver að halda þessu við.“

Miðvikudaginn 17. janúar ætlar Snorri að halda upp á útgáfuna með tónleikum. Hann fær með sér átta manna kór, Örn Eldjárn gítarleikari verður á svæðinu sem og Guðmundur Óskar á bassa en hann stjórnaði upptökum á plötunni. Lay Low tekur lagið og mögulega eitthvað meira. Teitur Magnússon spilar brot af sinni nýjustu plötu.

„Ég er að spá í að fá einhvern til að koma og lesa upp – vera með algjöran baðstofu- og kvöldvökufíling. Fara alla leið í nördaskap.“

Þú setur kannski bara upp baðstofu á sviðinu?

„Já, það er pæling, fæ kannski gamla konu til að spinna á rokk og svona.“

Það verður bersýnilega stuð þetta kvöld, hvort sem Snorri setur upp baðstofu á sviðinu eða ekki. Annars segist Snorri ekki vera með nein svakalega konkret plön fyrir framtíðina enda á hann von á barni á næstunni og það gæti riðlað hlutunum. Þó segir hann það hugsanlegt að hann fari að kíkja á nýja plötu sem hann á á lager og svo er tíðinda að vænta af hlaðvarpsþætti hans og Bergs Ebba, Fílalag.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.