Lífið

Katie eyddi 1,5 milljónum á sólarhring á Íslandi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Katie Becker hafði nóg að gera á Íslandi.
Katie Becker hafði nóg að gera á Íslandi. Vísir/Eyþór
Blaðakonan Katie Becker fékk á dögunum áhugavert verkefni frá lífstílssíðunni Coveteur þar sem hún starfar. Hún fékk fimmtán þúsund dollara, um eina og hálfa milljón króna, og var sagt að eyða sólahring á Íslandi á eins íburðarmikinn hátt og hún gat.

Fjallar hún um afraksturinn í færslu á vef Coveteur þar sem hún sagðist hafa fetað í fótspor Gwyneth Paltrow og Beyoncé sem sótt hafa Ísland heim með stæl á undanförnum árum.

Sólarhringur hennar hér á landi hófst með því að hún fékk einkabílaþjónustu til þess að sækja sig á flugvöllinn á Mercedes Benz lúxusbíl. Var henni ekið beinustu leið í Bláa lónið. Kostaði þetta Katie litla 400 dollara, um 40 þúsund krónur. Eyddi hún alls þremur tímum í Bláa lóninu þar sem hún mælir sérstaklega með því að bóka einkaklefa með þjóni. Eyddi hún 350 dollurum í Bláa lóninu og var heildareyðsla hennar því komin upp í 80 þúsund krónur.

Eftir að hafa slakað á í Bláa lóninu var næsta skref að fara í þyrluferð. Var hún sótt í Bláa lónið á þyrlu áður en hún fór í einkaferð um Suðvesturhornið. Ef marka má myndirnar sem fylgja færslu Katie flaug hún yfir fossinn Glym í botni Hvalfjarðar auk þess sem að stoppað var í grennd við Kirkjufell á Snæfellsnesi. Þá segir hún að stoppað hafi verið ofan á jökli þar sem borðaður var hádegismatur.

Með þyrluferðinni fór um helmingur af ráðstöfunarfé Katie en ferðin kostaði hana sjö þúsund dollara, eða um 730 þúsund krónur. Þaðan var farið niður í miðbæ Reykjavíkur í verslunarferð. Kom hún við í hönnunarverslun Hildar Yeoman þar sem hún keypti þrjár flíkur fyrir rétt rúmlega þúsund dollara, eða um 100 þúsund krónur.

Þaðan var haldið til Gilberts úrsmiðs þar sem fjárfest var í úri frá JS Watch Company. Fetaði hún þar með í fótspor Ben Stiller, Tom Cruise, Yoko Ono og fleiri sem öll hafa keypt slík úr. Úrið kostaði Katie 3.500 dollara, um 350 þúsund krónur.

Frá Gilberti var förinni heitið í verslun Geysis þar sem Katie nældi sér í teppi, peysu og slá fyrir 765 dollara. Eftir verslunarferðina var heildareyðsla Katie orðin rétt rúmlega þrettán þúsund dollarar eða 1,35 milljónir króna og því tæplega tvö þúsund dollarar eftir fyrir kvöldverð og gistingu.

Easily the best hike in the world In Iceland with @bioeffectofficial

A post shared by Katie Jayne Becker (@katiejaynebecker) on

Katie hélt rakleiðis á Fiskmarkaðinn þar sem hún fékk sér níu rétta smakkseðil ásamt víni með hverjum rétti. Svo virðist sem að hún hafi splæst á ljósmyndarann sem var með í för en hún tekur sérstaklega fram að fyrir kvöldverðinn hafi hún greitt 312 dollara, um þrjátíu þúsund krónur, fyrir smakkseðil og vín fyrir tvo.

Þá voru eftir um 1.600 dollarar fyrir gistinguna og varð svíta á Sandhotel í miðbænum fyrir valinu. Virðist hún hafa verið sérstaklega ánægð með baðkarið en fyrir ofan það er gluggi. Segir hún að þar hafi hún eytt því sem eftir var af kvöldinu, með kampavín í hönd og norðurljósasýningu út um gluggann fyrir augunum.

Þetta kostaði 1.500 dollara, um 150 þúsund krónur. Með morgunverðinum í Sandholt bakaríinu á Laugavegi morgunin varð heildareyðsla Katie á einum sólarhring 14.902 dollarar eða 1,47 milljónir á gengi dagsins í dag. Því má reiknað að hún hafi nægan pening til þess að komast aftur á flugvöllinn á leið heim til Bandaríkjanna á ný.

Lesa má færslu Katie á vef Coveteur hér.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×