Viðskipti innlent

Kristján ráðinn framkvæmdastjóri eTactica

Daníel Freyr Birkisson skrifar
Kristján Guðmundsson, nýr framkvæmdastjóri eTactica.
Kristján Guðmundsson, nýr framkvæmdastjóri eTactica. eTactica
Kristján Guðmundsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri eTactica ehf., en Kristján hefur verið tæknistjóri félagsins frá 2015.

Á undanförnum árum hefur verið ráðist í umfangsmiklar skipulagsbreytingar á tæknisviði, og mikil framþróun náðst í tækni félagsins, en eTactica selur vörur sem gerir fyrirtækjum kleift að skilja og bæta orkunotkun sína.

Þá hefur eTactica undanfarið aukið samstarf sitt við íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Activity Stream, sem hefur þróað sérstaka útgáfu af hugbúnaði sínum fyrir vélbúnað eTactica.

Þá segir í tilkynningu að stjórn eTactica og Eggert Benedikt Guðmundsson hafi nú komist að samkomulagi um að Eggert Benedikt láti af störfum sem forstjóri eTactica.

Kristján segir markaðsstöðu eTactica nú vera sterkari en nokkurn tímann áður. Hann segist auk þess fullur tilhlökkunar að takast á við nýtt verkefni og að nú sé mikið sóknartækifæri.

Aðaláherslur í frekari uppbyggingu eTactica eru á sölu- og markaðsstarf félagsins.

Kristján Guðmundsson er með doktorsgráðu í reiknilegri straumfræði frá tækniháskólanum í Kaliforníu (CalTech). Kristján hefur unnið á ýmsum sviðum eftir að námsferlinum lauk, m.a. við þróun vatnshreinsibúnaðar hjá sprotafyrirtæki í Hollandi, og sem söluráðgjafi hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Quintiq.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×