Enski boltinn

Aðeins tveir leikmenn úr ensku úrvalsdeildinni í liði ársins hjá UEFA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi og Cristinao Ronaldo.
Lionel Messi og Cristinao Ronaldo. Vísir/Getty
Harry Kane og Neymar komust hvorugur í lið ársins hjá UEFA, Knattspyrnusambandi Evrópu, en gestir á heimasíðu UEFA greiddu alls 8,8 milljónir atkvæða í kosningunni í ár.

Aðeins tveir leikmenn úr ensku úrvalsdeildinni í liði ársins hjá UEFA en það eru þeir Kevin De Bruyne hjá Manchester City og Eden Hazard hjá Chelsea.

Þeir eru reyndar fyrstu leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar til að komast í þetta árlega úrvalslið síðan að Angel Di Maria komst í liðið 2014 þá sem leikmaður Manchester United.

Sex leikmenn koma úr spænsku deildinni þar á meðal fimm úr Evrópumeistaraliði Real Madrid. Sjötti maðurinn er Lionel Messi frá Barcelona.  

Sergio Ramos, miðvörður Real Madrid, fékk flest atkvæði eða 588 þúsund en liðsfélagar hans í liðinu eru þeir Cristiano Ronaldo, Marcelo, Toni Kroos og Luka Modric.

Cristiano Ronaldo og Lionel Messi eru í tólfta sinn í úrvalsliðinu.

Hinn 39 ára gamli Gianluigi Buffon frá Juventus er í marki úrvalsliðsins og í því er einnig liðsfélagi hans Giorgio Chiellini.

Eini leikmaðurinn úr frönsku deildinni í liðinu er bakvörðurinn Dani Alves frá Paris Saint Germain.

Meðal þeirra sem komust ekki í liðið má nefna þá David de Gea, Paul Pogba og Robert Lewandowski auk Harry Kane og Neymar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×