Enski boltinn

Aðeins tveir leikmenn úr ensku úrvalsdeildinni í liði ársins hjá UEFA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi og Cristinao Ronaldo.
Lionel Messi og Cristinao Ronaldo. Vísir/Getty

Harry Kane og Neymar komust hvorugur í lið ársins hjá UEFA, Knattspyrnusambandi Evrópu, en gestir á heimasíðu UEFA greiddu alls 8,8 milljónir atkvæða í kosningunni í ár.

Aðeins tveir leikmenn úr ensku úrvalsdeildinni í liði ársins hjá UEFA en það eru þeir Kevin De Bruyne hjá Manchester City og Eden Hazard hjá Chelsea.

Þeir eru reyndar fyrstu leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar til að komast í þetta árlega úrvalslið síðan að Angel Di Maria komst í liðið 2014 þá sem leikmaður Manchester United.

Sex leikmenn koma úr spænsku deildinni þar á meðal fimm úr Evrópumeistaraliði Real Madrid. Sjötti maðurinn er Lionel Messi frá Barcelona.  

Sergio Ramos, miðvörður Real Madrid, fékk flest atkvæði eða 588 þúsund en liðsfélagar hans í liðinu eru þeir Cristiano Ronaldo, Marcelo, Toni Kroos og Luka Modric.

Cristiano Ronaldo og Lionel Messi eru í tólfta sinn í úrvalsliðinu.

Hinn 39 ára gamli Gianluigi Buffon frá Juventus er í marki úrvalsliðsins og í því er einnig liðsfélagi hans Giorgio Chiellini.

Eini leikmaðurinn úr frönsku deildinni í liðinu er bakvörðurinn Dani Alves frá Paris Saint Germain.

Meðal þeirra sem komust ekki í liðið má nefna þá David de Gea, Paul Pogba og Robert Lewandowski auk Harry Kane og Neymar.

Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.