Innlent

Tuttugu sjúkrarúm tekin úr notkun

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Jón M. Kristjánsson segir útlit fyrir mjög alvarlegt ástand.
Jón M. Kristjánsson segir útlit fyrir mjög alvarlegt ástand. vísir/anton brink
Tuttugu rúm á Landspítalanum hafa verið tekin úr notkun nýverið vegna skorts á hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum, segir Jón Magnús Kristjánsson, bráðalæknir á Landspítalanum. Greint var frá því á síðasta ári að um 500 hjúkrunarfræðinga vantar til starfa. Að auki vantar fjölda sjúkraliða.

Jón Magnús segir vandann sífellt vera að aukast. „Síðast var sex rúmum lokað á hjartadeildinni núna í desember og við finnum mikið fyrir því þegar kemur að innlögnum sjúklinga. Það er að myndast mjög alvarlegt ástand,“ segir Jón. Hann segir þessi 20 legupláss bætast við þá hundrað eldri einstaklinga sem hafa lokið sérhæfðri sjúkrahúsmeðferð en bíða eftir því að komast að á dvalarheimilum og hjúkrunarheimilum.

„Þannig að í raun og veru erum við með um 120 færri sjúkrahúsrúm en við þyrftum að vera. Þetta er á bilinu ¼ til ? af öllum sjúkrarúmum spítalans. Þarna verður vítahringur sem verður verri og verri nema að stjórnvöld grípi inn í,“ segir hann.

Niðurstaðan sé lengri legutími sjúklinga og hins vegar aukið álag á starfsfólk sem leiðir aftur til þess að fleiri hætta störfum. „Þannig að starfsmannaveltan verður meiri og það verður enn þá erfiðara að manna þau rúm sem eftir eru.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×