Enski boltinn

Skuggi á hús einnar fjölskyldu gæti eyðilagt drauma Abramovich

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Svona á nýi leikvangurinn að líta út, fái áætlanir að standa
Svona á nýi leikvangurinn að líta út, fái áætlanir að standa mynd/chelsea

Roman Abramovich, eigandi enska úrvalsdeildarliðsins Chelsea, er með áætlanir um byggingu glæsilegs nýs leikvangs sem mun kosta í kringum milljarð punda og verða dýrasti leikvangur í Evrópu. Þær áætlanir eru hins vegar í hættu vegna einnar fjölskyldu sem býr í nágrenni Stamford Bridge.

Fjölskyldan, sem hefur búið á heimili sínu í vestur Lundúnum í hálfa öld, setti inn formlega kvörtun vegna byggingaráætlananna í maí vegna þess að nýi leikvangurinn mun varpa varanlegum skugga á heimili þeirra.

Búið var að samþykkja bygginguna í deilisskipulagi borgarinnar og hefur borgarstjóri Lundúna gefið grænt ljós á framkvæmdirnar. Forráðamenn Chelsea leita nú ráða hjá bæjaryfirvöldum og funda fulltrúar Hammersmith og Fulham á mánudag til að skera út um hvað skuli aðhafast.

Chelsea bauð Crosthwaites fjölskyldunni sárabætur sem sagðar eru ganga á hundruðum þúsunda punda, en þær urðu ekki til þess að fjölskyldan tæki kvörtun sína til baka.

„Byggingin hefur óásættanleg og skaðleg áhrif á Kensington- og Chelsea hverfin,“ sagði Rose, dóttir Crosthwaites hjónanna í bréfi til stuðnings máls þeirra.

Fjölskyldan vill þó ekki bera sig á móti endurbótum á Stamford Bridge, heldur aðeins að austurstúkan verði endurhönnuð svo hún trufli síður.

Enn á eftir að koma í ljós hvort Abramovich geti haldið áfram með endurbæturnar á Stamford Bridge, en leikvangurinn tekur í dag aðeins 41 þúsund manns í sæti, samanborið 60 þúsund sætum Emirates vallarins.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.