Viðskipti innlent

Eigendur Lebowski bar opna írskan pöbb með karókíherbergi í stað Rosenberg

Daníel Freyr Birkisson skrifar
Unnið er að því að fá leyfi til þess að breyta klæðningu hússins svo hún verði í anda alvöru írskra pöbba.
Unnið er að því að fá leyfi til þess að breyta klæðningu hússins svo hún verði í anda alvöru írskra pöbba. Vísir/Vilhelm
„Án þess að setja pressu á okkur en þá verður þetta stærsti og flottasti írski bar sem opnaður hefur verið á Íslandi,“ segir Arnar Þór Gíslason á léttum nótum en hann mun í lok febrúar, byrjun mars, opna írskan pöbb, í gömlu húsnæði tónleikastaðarins Rosenberg á Klapparstíg.

Að rekstri nýja staðarins koma þeir Arnar Þór, Andri Björnsson, Logi Helgason og Óli Már Ólason, en þeir hafa til að mynda staðið fyrir rekstri Lebowski bar á Laugavegi við töluverðar vinsældir. Keyptu þeir staðinn í október síðastliðnum af Ólafi Erni Ólafssyni og Kára Sturlusyni sem þá höfðu rekið staðinn í fimm mánuði.

Arnar Þór Gíslason rekur, ásamt fleirum, Lebowski bar, Kalda bar og Den Danske Kro svo fátt eitt sé nefnt.Vísir/anton brink
Hann segir framkvæmdir munu fara fram á næstunni og er ætlunin að klæða húsið að utan í anda alvöru írskra pöbba.

„Við erum að vinna í því að fá leyfi frá húseigendum í hverfinu og byggingarfulltrúa til þess að breyta klæðningunni og útliti hússins að utan. Stefnan er að fólk gangi framhjá og fari strax í fílinginn,“ segir Arnar.

Hann bætir við að þeir félagar hafi ferðast til Írlands til þess að festa kaup á innréttingum og alls kyns veggskrauti til þess að gera upplifunina inni á staðnum sem raunverulegasta. Meðal þess sem flutt er inn sé 80 ára gömul írsk bjórdæla sem dæla mun ísköldum bjór ofan í þyrsta viðskiptavini.

Innfæddir Írar leika fyrir dansi

Það verða ekki aðeins flutt inn húsgögn og veggskraut fyrir staðinn heldur segir Arnar að einnig standi til að flytja inn írska tónlistarmenn til þess að halda uppi lífi og fjöri.

Hann segir einhverjar þreifingar hafa átt sér stað í þeim efnum og að ýmsir tónlistarmenn hafi sýnt því áhuga að ferðast hingað til lands í þeirri erindagjörð að flytja írska tónlist fyrir Íslendinga.

Tónlistin verður í fyrirrúmi að sögn Arnars en þó verður hægt að horfa á boltaleiki dauðum stundum auk þess sem þeir sviðshræddu geta leigt sér hliðarherbergi til að syngja.


Tengdar fréttir

Kári Sturluson kaupir Café Rosenberg

Kári Sturluson, tónleikahaldari, hefur keypt Café Rosenberg af þeim Þórði Pálmasyni og Auði Kristmannsdóttur en staðurinn er einn þekktasti tónleikastaður í Reykjavík.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×