Lífið

Rétti tíminn til að stíga fram

Þóra Jónsdóttir, söngkona og lögfræðingur, og Pálmi Sigurhjartarson sömdu saman lagið Orð til þín. Þau halda tónleika á skírdag.
Þóra Jónsdóttir, söngkona og lögfræðingur, og Pálmi Sigurhjartarson sömdu saman lagið Orð til þín. Þau halda tónleika á skírdag. MYND/EYÞÓR

Lögfræðingurinn Þóra Jónsdóttir lét gamlan draum rætast fyrir síðustu jól þegar hún gaf út sitt fyrsta lag sem nefnist Orð til þín.

Þóra, sem er 43 ára gömul, hefur frá barnsaldri tengst tónlist með ýmsum hætti. Hún lærði á píanó sem unglingur, söng í hljómsveitum og sótti söngnám í tónlistarskóla FÍH. Þegar hún stofnaði fjölskyldu milli tvítugs og þrítugs varð músíkin svolítið undir að hennar sögn. „Upp úr aldamótum héldum við Pétur Ben, náfrændi minn, saman nokkra tónleika og ég var svona að þreifa fyrir mér. Ég var þó ekkert farin að leiða hugann að því að semja músík á þessum árum.

Tónlistarþráin blundaði þó í henni og lét sterklega á sér kræla öðru hverju. „Veturinn 2006-2007 tók ég ársnám í „complete vocal“ tækni sem hefur síðan rutt sér til rúms hér á landi og er mikið notuð af söngfólki. Mér fannst frábært að stunda þetta nám og ég lærði mjög mikið en mig skorti trú á að ég ætti erindi sem tónlistarkona.“

Þóra og Pálmi hófu samstarf í haust sem sér ekki fyrir endann á. MYND/EDDI

Þakklát tækifærunum

Hún tók því u-beygju í lífinu og skráði sig í lögfræði sem hún kláraði árið 2013. „Í dag starfa ég sem lögfræðingur hjá Barnaheillum. Ég elska vinnuna mína og hef mikinn áhuga á mannréttindamálum. Á síðasta ári ákvað ég þó, að nú ég gæti ekki lengur vanrækt tónlistaráhugann eins og ég hafði gert of lengi og skráði mig á námskeið sem kallað er Söngur og sjálfstraust. Nú skyldi ég út með mig. Einnig ákvað ég að taka píanótíma hjá Pálma Sigurhjartarsyni sem ég kannaðist aðeins við. Þessar ákvarðanir leiddu mig á þann stað sem ég er komin á núna.“

Hún finnur að nú er rétti tíminn til að stíga fram sem tónlistarkona. „Ég var ekki tilbúin fyrr því ég setti fókusinn á annað af ýmsum ástæðum. En nú hefur líf mitt umpólast og það hverfist nánast um tónlistina og það er dásamlegt og magnað. Markmiðin mín eru þau helst að semja og semja, halda tónleika og gefa út músík. Og njóta og hafa gaman af. Og slaka á og fyrirgefa bullið í efasemdaröddunum. Svo ætla ég að vera þakklát fyrir tækifærin sem koma. Það er aldrei of seint að láta drauminn rætast.“

,,Textinn við Orð til þín, sem er óður til ástarinnar og mjög persónulegur, fæddist í lok nóvember og lagið kom nær samstundis þegar ég sendi hann til Pálma," segir Þóra. MYND/EDDI

Gott flæði

Þóra samdi textann við lagið Orð til þín en Pálmi Sigurhjartarson samdi lagið. „Hann hvatti mig áfram í að taka mér pláss sem tónlistarkona, og var að leiðbeina mér á píanóið og í músík. Í kjölfarið fundum við þörf og flöt á samstarfi sem við leyfðum að verða til. Textinn við Orð til þín, sem er óður til ástarinnar og mjög persónulegur, fæddist í lok nóvember og lagið kom nær samstundis þegar ég sendi hann til Pálma. Við ákváðum mjög fljótt að taka lagið upp og þegar því var lokið var engin ástæða til að bíða með útgáfuna. Ég var auðvitað orðin mjög tilbúin að koma frá mér efni og óskaplega glöð yfir þessari þróun.“

Þótt fyrsta lagið sé komið út segist Þóra rétt komin út úr skápnum sem texta- og lagahöfundur. „En nú er flæðið mjög gott og margt að verða til. Textarnir mínir eru tilfinningatengdir og persónulegir. Ég leyfi mér að tala frá hjartanu. Tónlistin mín er enn svo ný að það er ekki hægt að merkja hana og hún gæti þróast á alls kyns vegu. Ég stefni á að gefa út fleiri lög á þessu ári en við Pálmi erum byrjuð að vinna nýtt efni. Við ætlum að halda tónleika á skírdag þar sem við munum flytja eigið efni ásamt lögum eftir aðra.“

Nánari upplýsingar um Þóru og tónlist hennar má finna á Facebook og á Spotify.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.