Erlent

Kærasti dóms­mála­ráð­herrans tekinn fyrir ölvunar­akstur

Atli Ísleifsson skrifar
Søren Pape Poulsen er formaður danska Íhaldsflokksins og hefur gegnt embætti dómsmálaráðherra frá nóvember 2016.
Søren Pape Poulsen er formaður danska Íhaldsflokksins og hefur gegnt embætti dómsmálaráðherra frá nóvember 2016. Vísir/Getty
Kærasti danska dómsmálaráðherrans Søren Pape Poulsen var nýverið tekinn fastur af lögreglu vegna ölvunaraksturs. Hann mældist með 1,25 prómill í blóðinu.

Pape greinir frá málinu á Facebook-síðu sinni. „Það er enginn vafi um það að þetta er mjög alvarlegt mál. Það er óverjandi að keyra undir áhrifum og getur haft miklar afleiðingar í för með sér. Nú verður sambýlismaður minn að taka út sína refsingu eins og aðrir. Afstaða mín til laga og reglna er sú sama og hún var í gær,“ segir ráðherrann.

Pape Poulsen er formaður danska Íhaldsflokksins og hefur gegnt embætti dómsmálaráðherra frá nóvember 2016 þegar fulltrúar Íhaldsflokksins og Frjálslynda bandalagsins (LA) tóku sæti í ríkisstjórn Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra og formanns Venstre. Íhaldsflokkurinn og LA höfðu áður varið minnihlutastjórn Venstre vantrausti, ásamt Danska þjóðarflokknum.

Í embættistíð sinni hefur Pape hert ýmis lög og reglur. Þannig missa menn ökuréttindi í þrjú ár ef þeir aka bíl og mælast með 1,2 til 2,0 prómill í blóðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×