Erlent

Nýfæddar stjörnur í glóandi gasskýi í nýju myndbandi NASA

Kjartan Kjartansson skrifar
Nýfæddar stjörnur, glóandi gas og rykskífur sem eru að mynda ný sólkerfi eru á meðal þess sem ber fyrir augu í myndbandinu af Sverðþokunni.
Nýfæddar stjörnur, glóandi gas og rykskífur sem eru að mynda ný sólkerfi eru á meðal þess sem ber fyrir augu í myndbandinu af Sverðþokunni. NASA, ESA, F. Summers, G. Bacon, Z. Levay, J. DePasquale, L. Frattare, M. Robberto and M. Gennaro (STScI), and R. Hurt (Caltech/IPAC)

Bandaríska geimvísindastofnunin NASA hefur sameinað myndir frá tveimur geimsjónaukum til þess að búa til þrívíddarlíkan af Sverðþokunni, skærustu stjörnuþokunni á næturhimninum, í nýju myndbandi. Með því geta áhorfendur skoðað fæðingarstað stjarna í þokunni.

Sverðþokan, einnig þekkt sem Messier 42, er það stjörnumyndunarsvæði í Vetrarbrautinni sem er næst jörðinni. Hún er jafnframt eitt bjartasta fyrirbærið á næturhiminum og þekur fjórfalt stærra svæði en fullt tungl, að því er segir á Stjörnufræðivefnum.

Hún er um 24 ljósár að þvermáli og sést jafnvel með berum augum frá jörðinni. Hana má finna sunnan Fjósakvennanna í stjörnumerkinu Óríon.

Augu manna geta þó ekki greint Sverðþokuna í öllu sínu veldi. Því skeyttu sérfræðingar NASA saman myndum frá Hubble-geimsjónaukanum, sem tekur myndir á sýnilega hluta litrófsins auk útfjólublá og nærinnrauða hlutans, við myndir frá Spitzer-geimsjónaukanum, sem er næmur fyrir innrauðu ljósi.

Með hjálp þess sem þeir kalla „Hollywood-brellur“ bjuggu þeir til myndband af flugi í gegnum Sverðþokuna í þrívídd.

„Að geta flogið í gegnum vefnað stjörnuþokunnar í þremur víddum gefur fólki miklu betri tilfinningu fyrir því hvernig alheimurinn er í raun og veru,“ segir Frank Summers frá Geimsjónaukavísindastofnuninni (STScI) sem leiddi hópinn sem setti saman myndbandið hjá NASA.

Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.