Íslenski boltinn

Stjörnumenn að safna sóknarlínu Ólafsvíkinga | Guðmundur Steinn í Stjörnuna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Steinn Hafsteinsson er nýr leikmaður Stjörnunnar.
Guðmundur Steinn Hafsteinsson er nýr leikmaður Stjörnunnar. Mynd/Fésbókarsíða Stjörnunnar

Framherjinn Guðmundur Steinn Hafsteinsson mun spila áfram í Pepsi-deildinni næsta sumar en hann hefur yfirgefið Víking úr Ólafsvík og samið við Stjörnuna.

Stjörnunmenn segja frá því á fésbókarsíðu sinni að Guðmundur Steinn Hafsteinsson hafi skrifað undir tveggja ára samning við Garðabæjarliðið.

Það er straumur úr Ólafsvík í Garðabæinn í vetur og það er eins og Stjörnumenn séu hreinlega að safna sóknarlínu Ólafsvíkinga.

Ólafsvíkingar féllu úr Pepsi-deildinni á síðustu leiktíð og hafa þegar misst tvo bestu sóknarmenn sína í Garðabæinn. Áður hafði Þorsteinn Már Ragnarsson samið við Stjörnuna.  Þessir tveir báru fyrirliðabandið í 22 leikjum Víkinga í Pepsi-deildinni 2017, Guðmundur Steinn var fyrirliði í 16 leikjum en Þorsteinn Már í 6 leikjum.
Guðmundur Steinn er markahæsti leikmaður Víkings Ólafsvíkur í efstu deild en hann deilir því sæti með Hrvoje Tokic sem Ólafsvíkingar misstu til Breiðabliks fyrir síðasta tímabil.

Guðmundur Steinn, sem er 28 ára, stór og stæðilegur framherji, er uppalinn í Val en hann hefur einnig leikið með HK, Fram og ÍBV á ferlinum auk þess sem hann var hjá Notodden í Noregi 2015 og hluta sumars 2016. Guðmundur Steinn hefur skorað 21 mark í 93 leikjum í úrvalsdeild karla þar af 9 mörk í 37 Pepsi-deildar leikjum með Víkingum.

„Guðmundur kemur væntanlega að einhverju leyti til með að fylla skarð Hólmberts Aron Friðjónssonar sem er á leið í atvinnumennsku. Hann er í viðræðum við Íslendingalið Álasunds í Noregi,“ segir í frétt á fésbókarsíðu Stjörnunnar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.