Lífið

Óþolandi jákvæður stuðbolti

Þórdís Lilja Gunnarsdóttir skrifar
"Það gleður mig að lagið komi landanum í stuð og ég vona að fólk sé að fara að skemmta sér um helgina með vinum sínum, segir Sverrir Bergmann.
"Það gleður mig að lagið komi landanum í stuð og ég vona að fólk sé að fara að skemmta sér um helgina með vinum sínum, segir Sverrir Bergmann. MYND/VILHELM
Ég og þú og allir vinir mínir. Ég og þú og allir vinir þínir. Gera lífið svo miklum mun skemmtilegra, segir stuðboltinn Sverrir Bergmann sem syngur fyrstu stuðbombu nýársins.



„Ég er alla jafnan mjög hress. Mitt viðhorf til lífsins er að vera góður við aðra, gera sitt vel og skemmta sér. Það er miklu meira gaman ef allir eru saman og hjálpa hver öðrum. Sumir segja mig reyndar óþolandi jákvæðan en ég er á því að maður eigi að bæta í brosið frekar en að rífa allt niður,“ stuðboltinn, söngvarinn og háskólaneminn Sverrir Bergmann.

Sverrir syngur heitasta stuðlag nýársins, Ég ætla að skemmta mér, með hljómsveit sinni Albatross. Lagið kom út á milli jóla og nýárs og hefur stimplað sig rækilega í hlustir landsmanna sem dilla sér og syngja með um borg og bæ.

„Okkur langaði að semja grípandi stuðlag og þetta er diskóskotinn smellur sem hefur verið vinsæl bylgja ytra en enginn hafði hoppað á hér heima,“ segir Sverrir sem gæti átt það til að syngja lagið í einkasamkvæmi í Keflavík í kvöld, en um aðra helgi flytur Albatross lagið „live“ í fyrsta sinn á þorrablóti Stjörnunnar í Garðabæ.

Lagið er eftir Halldór Gunnar Pálsson, aðallagahöfund Albatross, en textann gerðu strákarnir saman.

„Textinn er uppfullur af óborganlegum frösum félaga okkar og búbbólínum frá Guðbjarti Jónssyni frá Flateyri sem hefur meðal annars sagt: „Ég sá svo sæta stelpu að ég fór alveg framhjá mér,“ og „Ég fer niðrí bæ til að sjá mig og sjá aðra.“ Einhvern tímann var svo ófært á ball fyrir vestan og þá gleymist seint þegar einn sagði: „Komiði, strákar! Þetta er ekki lengi gengið af mörgum mönnum,““ segir Sverrir og skellir upp úr, enda nóg af gleðinnar mannskap í kringum hann með frasana á hreinu.

„Einn er alltaf mættur í city-dressinu þegar hann er kominn í sparigallann og sá sami segist hafa verið gassalegur tvítugur, eins og segir í laginu. Við fórum í orðabók til að athuga hvort til væri íslenska orðið gassalegur, með tveimur essum, og þá kom upp úr dúrnum að það þýðir ofsakátur, sem smellpassar auðvitað!“

 

Stærðfræði liggur vel fyrir Sverri. Hann dúxaði í stærðfræði í grunnskóla og framhaldsskóla og leggur nú stund á nám í viðskiptafræði við Háskólann á Bifröst.MYND/VILHELM
Flottir kallar í spunadansi

Sverrir er oftast kallaður Svessi en Big Swess í myndbandinu við stuðlag þjóðarinnar nú.

„Jú, það er eitt af mörgum gælunöfnum mínum en á milli vina á ég mér fleiri gælunöfn sem ekki eru prenthæf,“ segir Sverrir sposkur en hann er heldur betur á dansskónum í myndbandinu, ásamt fleiri dansfærum körlum.

„Rauði þráðurinn í laginu er gæi sem ætlar að skemmta sér en er með danskortið galtómt. Hann býður dömu upp í dans og þar eru einmitt „ég og þú, og allir vinir mínir, ég og þú, og allir vinir þínir, sem ætla að skemmta sér“,“ útskýrir Sverrir.

„Við hóuðum saman nokkrum skemmtilegum gæjum sem við vissum að væru til í stuð og hægt væri að fá til að hreyfa sig án þess að það kostaði vesen. Þetta eru þó ekki mennirnir á bak við frasana heldu flottir kallar sem spunnu sín eigin dansspor á staðnum en sjálfur bjó ég til lokadanssporið í restina.“

Sverrir elskar að skemmta fólki með en segir helsta gallann við það að spila mikið um helgar vera að missa af samveru við sína nánustu.MYND/VILHELM
Nördið og töffarinn

Sverrir hefur tónlist nú að aðalstarfi en lýkur námi í viðskiptafræði við Háskólann á Bifröst í árslok.

„Ég hafði svo mikinn tíma aflögu á virkum dögum eftir að ég ákvað að gerast poppari að mér þótti sniðugt að nota hann til að næla mér í meiri menntun. Ég hef alltaf haft gaman af tölum og prófaði að fara í stærðfræði í Háskólanum um árið en það átti ekki jafn vel við mig og viðskiptafræðin sem hentar mér mjög vel. Sérstaklega töluáfangar þar sem Excel og fleiri góðir félagar koma við sögu,“ segir Sverrir sem dúxaði í stærðfræði bæði í grunnskóla og framhaldsskóla.

„Það er mikið hark og maður þarf að spila ansi mikið til að afla sér vænna launa í tónlistarbransanum. Því langar mig að spreyta mig sem viðskiptafræðingur þegar ég hef lokið námi.“

Sverrir er fæddur og uppalinn á Sauðárkróki þar sem hann tók þátt í Söngvakeppni framhaldsskólanna fyrir hönd Framhaldsskóla Norðurlands vestra árið 2000 og sigraði með laginu Án þín.

„Ég var nú eitthvað byrjaður að söngla áður en ég tók þátt í söngvakeppninni en þó ekki meira en hver annar sísyngjandi Skagfirðingur,“ segir Sverrir sem kom sigurinn á óvart. „Ég hafði alls ekki ætlað mér að taka þátt í þessari keppni því ég hafði reynt við það án árangurs á fyrsta árinu. Svo þegar Auddi vinur minn hafði samið þennan svaka fína texta við lag Bon Jovi kunni ég ekki við annað en að taka þátt. Annað hefði verið dónaskapur.“

Þeir Auddi, eða Auðunn Blöndal útvarpsmaður og skemmtikraftur, eru æskuvinir.

„Við Auddi vorum saman í bekk. Hann sat aftast og ég fremst en við náðum saman fyrir rest, nördið og töffarinn,“ segir hann og hlær. „Við höfum síðan fylgst að í gegnum lífið og erum miklir vinir. Ég er vinamargur, mjög heppinn með vini og mitt helsta ríkidæmi í lífinu eru vinirnir sem ég hef hitt á lífsins leið,“ segir Sverrir sem mundi þó aldrei kalla neinn vina sinna bestan því þeir standi honum allir jafnfætis. „Góður vinur er sá sem maður hefur jafnvel ekki hitt í áratug en það skiptir engu því hann stendur með þér hvort sem er. Sjálfur held ég að ég sé góður vinur vina minna, almennilegur og notalegur.“

„Ég er mest beðinn um þjóðhátíðarlögin og Án þín úr söngvakeppninni. Ég verð auðvitað alltaf við því enda er ég miklu frekar skemmtikraftur en söngvari,“ segir Sverrir.MYND/VILHELM
Ræða hjartans mál í tölvuleik

Eftir sextán ár sem annar tveggja þáttarstjórnenda tölvuleikjaþáttarins Game Tíví hefur Sverrir sagt skilið við þáttinn í bili.

„En ég er enn sami tölvuleikja­nördinn. Við erum nokkrir fullorðnir menn sem spilum saman með hver annan í eyrunum, sem er mögnuð upplifun. Ég hef aldrei verið í eins miklum tenglsum við vini mína og eftir að við gátum spilað saman á þennan hátt, fjarri hver öðrum en þó saman allan tímann. Á meðan spilað er ræðum við öll okkar hjartans mál en kannski fimm prósent af tímanum um sjálfan leikinn,“ segir Sverrir um jákvæða þróun tölvuleikja.

„Með þessu móti hafa tölvuleikir orðið félagslega jákvæðir fyrir börn og ungmenni sem eiga kannski erfitt með að eignast vini eða tjá sig. Þarna geta þau orðið félagslega sterkari þrátt fyrir að vera ein heima, því þau eru með vinina í eyrunum, allt er óþvingað og allir eru í góðum fíling því það er svo gaman að leika sér saman. Inni á milli er þó vitaskuld gott að hittast til að spila saman og það gerum við félagarnir líka,“ segir Sverrir sem um þessar mundir er mest heillaður af tölvuleiknum Hearthstone.

Nýtur þess að skemmta fólki

Hljómsveitin Albatross kom fyrst fram á Þjóðhátíð í Eyjum árið 2016 þegar hún frumflutti Þjóðhátíðarlagið Ástin á sér stað, með Friðriki Dór. Lagið er eftir Halldór Gunnar sem samdi líka Þjóðhátíðarlagið Þar sem hjartað slær árið 2012.

„Albatross hefur að markmiði að skemmta fólki því þannig á það að vera. Að hafa gaman af lífinu,“ segir Sverrir sem fer sjálfur lítið út að skemmta sér.

„Sem skemmtikraftur er ég alltaf að skemmta öðrum. Ég elska það og fæ ekki nóg af því, er mikið dansfífl og oftast búinn á því kófsveittur eftir ball.“

Um helgar sefur Sverrir sem lengst út og reynir að vakna ekki fyrir hádegi svo hann hafi krafta í næturvinnuna.

Oftast nær skemmti ég frá klukkan tíu á kvöldin og stundum fram til fjögur, fimm á morgnana. Þá er gott að hafa sofið vel því maður þarf að standa sína vakt og vera í stuði á sviðinu, sama hvað. Mér finnst það alltaf jafn gaman og er alltaf í banastuði því mér finnst svo gaman að dansa.“

Á virku dagana með ástinni

Sverrir býr með unnustu sinni Línu Birgittu Sigurðardóttur lífsstílsbloggara og hafa þau verið saman í þrjú ár.

„Okkar fyrstu kynni voru gamaldags og hefðbundin. Við hittumst og fórum út að borða og hún bauð mér, sem var voðalega skemmtilegt. Línu Birgittu þykir vissulega leiðinlegt hvað ég er mikið að heiman um helgar og helsti gallinn við að spila mikið er að maður missir af samveru og viðburðum í lífi manns nánustu. Líf popparans er ekki hefðbundið og helgarnar detta oft alveg út hjá okkur, en við höfum virku dagana saman og erum þá lausari við.“

Um þessa helgi ætlar Sverrir að panta sér pítsu, sinn uppáhaldshelgarmat.

„Ég elska pítsur og er líka mikill ostapoppsmaður. Ég er samt hræðilegur í eldhúsinu og hef ekki enn fundið gleðina í að elda mat. Að panta pítsurnar sparar því bæði tíma og fyrirhöfn,“ segir hann brosmildur.

Sverrir tók þátt í undankeppni Eurovision hér heima með laginu Dönsum burtu blús árið 2014, en hugnast sú keppni ekki.

„Ég hef síðan oft verið beðinn um að endurtaka leikinn með góðum lögum en mig langar ekki til þess. Mér finnst hugmyndin að keppa um lag svo skrýtin og svo tekur við aftaka ef maður kemst ekki áfram. Ég er búinn að sigra í söngvakeppni,“ segir hann og hlær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×