Innlent

Slökkvistarfi lokið á Hellisheiði

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Allt tilktækt lið slökkviliðs á höfuðborgarsvæðinu og Árnessýslu var kallað út vegna elds í Hellisheiðarvirkjun
Allt tilktækt lið slökkviliðs á höfuðborgarsvæðinu og Árnessýslu var kallað út vegna elds í Hellisheiðarvirkjun Vísir/Sindri Reyr

Slökkvistarfi er nú lokið á Hellisheiði en eldur kom upp í loftræstibúnaði Hellisheiðarvirkjunar laust fyrir hádegi í dag. Brunavarnir Árnessýslu munu þó vakta svæðið í nótt. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Orku náttúrunnar.

Ekki er útlit fyrir að verulegt tjón hafi orðið á framleiðslubúnaði virkjunarinnar og að sá búnaður sem sló út eða slökkt var á í dag skili fullum afköstum um eða eftir helgi. Jarðhitasýning Orku náttúrunnar, sem starfrækt er í virkjuninni, verður þó lokuð fram á mánudag, að minnsta kosti.

Eftir að eldurinn hafði verið slökktur gengu reykkafarar úr skugga um að ekki leyndust glæður milli þilja og stóð það starf fram á fimmta tímann. Ekki er vitað hver eldsupptökin voru en eldur logaði í um tvo tíma í loftræstibúnaði og þaki miðhluta stöðvarhússins, þar á meðal þakpappa sem gaf frá sér talsverðan reyk. Nú þegar er verið að undirbúa fyrstu viðgerðir á þaki stöðvarhússins.

Í tilkynningunni segir að almenningur hafi ekki orðið fyrir truflun á framleiðslunni og vonað erað svo verði ekki. Einni af sex háþrýstivélum Hellisheiðarvirkjunar sló út skömmu eftir að eldsins varð vart en engin tengsl hafa þó enn sést þar á milli. Af öryggisástæðum var þó ákveðið að slökkva á lágþrýstivél virkjunarinnar og varmastöð áður en slökkvistarf hófst. Útlit er fyrir að takist að endurræsa lágþrýstivélina og varmastöðina um helgina.

Í varmastöðinni er framleitt heitt vatn fyrir hitaveituna á höfuðborgarsvæðinu. Þar sem útlit er fyrir kólnandi veður er full þörf fyrir þá framleiðslu. Í dag var meðal annars farið yfir til hvaða aðgerða mætti grípa tefjist það að koma heitavatnsframleiðslunni af stað.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.