Handbolti

Guðjón Valur: Ertu að reyna að fá mig til að rífa kjaft?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðjón Valur í leiknum í kvöld.
Guðjón Valur í leiknum í kvöld. Vísir/Ernir

Fyrirliðinn Guðjón Valur var auðvitað hæstánægður með sigur strákanna okkar á Svíum, 26-24, þó svo að það hafi gengið á ýmsu í leiknum.

„Þetta er eins og manni dreymir um fyrir leik - það gekk allt upp hjá okkur en ekkert hjá þeim. Það var vitað mál að það yrði erfitt að halda sama dampi og þeir spila annan hálfleik illa. Það var gott að klára þetta þó þetta hafa hikstað óþarflega í seinni hálfleik,“ sagði Guðjón Valur.

Hann segir að leikskipulagið hafi verið á hreinu hjá íslenska liðinu og að þeim hafi tekist að vinna þær baráttur úti á vellinum sem þeir ætluðu sér að gera.

„Við fengum þar af leiðandi mjög góð færi, sérstaklega í fyrri hálfleik. Við þurftum að taka aðeins meiri áhættur í seinni hálfleik sem gerði markverðinum þeirra auðvelt fyrir,“ sagði fyrirliðinn enn fremur.

Ísland skoraði ekki á tíu mínútna kafla í síðari hálfleik og var Guðjón Valur spurður út í hinn fræga slæma kafla eins og hann var gerður á HM í Frakklandi í fyrra, við litla hrifningu hans.

Sjá einnig: Guðjón Valur: Ekki byrja á þessu, gerðu það fyrir mig

„Ertu að reyna að fá mig til að rífa kjaft eins og í fyrra - ákvaðstu það fyrir mót?“ sagði Guðjón Valur þá í léttum dúr. „Það var enginn slæmur kafli. En nei, nei - þetta var orðið mjög þétt hjá þeim og okkur tókst engan veginn að opna vörnina hjá þeim, þrátt fyrir að við reyndum öll okkar kerfi. En við skoruðum undir lokin og það var það sem skiptir máli.“

Guðjón Valur vildi þrátt fyrir allt ekki gera of mikið úr sigri Íslands. „Við erum samt að fara að spila við Króatíu eftir tvo daga. Auðvitað líður manni vel með 2 stig en það er stórhættulegt að ætla að verða ánægður og glaður. Planið breytist ekki hjá okkur. Þetta lögðum við samt upp með og þetta er gott veganesti fyrir framhaldið.“


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.