Menning

Það er skapandi eins og það er nagandi að efast

Magnús Guðmundsson skrifar
Steinunn Ólína segir karlmenn sem beita konur ofbeldi ekki karlmenn heldur vesalinga.
Steinunn Ólína segir karlmenn sem beita konur ofbeldi ekki karlmenn heldur vesalinga. Fréttablaðið/Anton Brink
Fyrir þrettán árum ákvað Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir að hætta í leikhúsinu eftir þá þegar afar farsælan feril. Ákvörðunin kom mörgum á óvart enda margir um hituna og hvert tækifæri í leikhúsinu en Steinunn Ólína segir sjálf að það hafi einfaldlega legið margar ástæður að baki. „Of mikið vinnuálag var kannski helsta ástæðan og sú staðreynd að mér fannst vinnan ekki lengur ögrandi. Mig langaði líka til að láta á það reyna hvort ég væri hreinlega fær um að gera eitthvað annað en að leika en ég hafði starfað í atvinnuleikhúsi í nærri 20 ár þegar ég ákvað að venda kvæði mínu í kross.

Mig langaði líka til að eignast stærri fjölskyldu og gat ómögulega hugsað til þess að vera svo fjarri börnum mínum eins og ég reyndi með mitt fyrsta barn. Mig langaði til að vera mamma.“

Steinunn Ólína segir að það hafi líka eflaust verið í henni einhver ótti við að verða gólffjöl í Þjóðleikhúsinu sem eflaust hafi þó verið ástæðulaus og ótímabær kvíði. Hún bendir líka brosandi á að nú sé runnin upp gósentíð miðaldra kvenna í sjónvarpi og kvikmyndum. „Einhver vitringurinn er búinn að átta sig á því að konur horfa á sjónvarp og kvikmyndir og sá áhorfendahópur vill gjarnan horfa á kynsystur sínar takast á við hin ólíkustu hlutverk. Það er gott að vera miðaldra leikkona akkúrat núna,“ segir Steinunn Ólína og brosir sposk.

Andleg hvíld

Verkið sem Steinunn Ólína valdi til þess að snúa aftur er Efi dæmisaga, eftir bandaríska leikskáldið John Patrick Shanley í leikstjórn Stefáns Baldurssonar. Verkið hefur hlotið mikið lof gagnrýnenda en það þykir vera krefjandi fyrir leikara. Steinunn Ólína segir að það séu samverkandi þættir í þessu verkefni sem hafi orðið til þess að hún ákvað að snúa aftur. „Akkúrat núna finnst mér þetta aftur vera mikil áskorun og ég er áhættusækin að eðlisfari. Þetta er líka dásamlegt hlutverk og þó svo umfjöllunarefnið sé erfitt þá fylgir því ákveðin andleg hvíld að fá svona magnað hlutverk í hendurnar. Gjafir leiklistarinnar eru margar en meðal annars þær að gefa manni frí frá sjálfum sér. Maður fær frið fyrir hversdagsamstrinu þegar maður fær að leika góð hlutverk.“

Steinunn Ólína hefur á orði að óneitanlega hafi samstarfsfólkið líka haft mikið að segja. „Stefán Baldursson, leikstjóri sýningarinnar, er einn af stærstu áhrifavöldum í mínu lífi, hann réð mig á samning í Þjóðleikhúsinu á sínum tíma og kann betur til verka í leikhúsi en flestir. Ég treysti honum til að láta mig ekki komast upp með nein undanbrögð eða kjaftæði. Leikstjórar verða að gera miklar kröfur til leikara sinna og það gerir Stefán af stakri nákvæmni. Stefán lætur alltaf verkin og leikarana sem hann vinnur með í forgang og gerir sjálfan sig ekki að aðalatriði í sýningum sínum. Æfingaferlið hefur verið afar gjöfult og það er einstakt að leika á móti Hilmi, Láru Jóhönnu og Sólveigu, allt afburðaleikarar.“

Steinunn Ólina og Hilmir Snær í hlutverkum sínum í verkinu Efi ­ dæmisaga í Þjóðleikhúsinu. Mynd/Hörður Sveinsson
Skapandi að efast

Leikritið fjallar um skólastýru í kaþólskum barnaskóla í New York sem þarf að horfast í augu við grun þess eðlis að prestur í kennarahópnum eigi í óeðlilegum samskiptum við einn af skólapiltunum. Steinunn Ólína segir að vissulega tali verkið inn í metoo-umræðu dagsins í dag þar sem við sem samfélag stöndum líka frammi fyrir stórum spurningum. „Hvað er satt og hvað er logið? Flestir eiga erfitt með að henda reiður á hverjar af heimsfréttunum eru marktækar, ef þá einhverjar. Í Hvíta húsinu situr brjálaður maður sem er ekki bara Ameríkönum til skammar heldur heimsbyggðinni allri. Hvernig gerðist það og hvernig gátum við verið svona andvaralaus? Verkið Efi varpar fram þeirri spurningu hvort sannfæring okkar sé endilega óskeikull sannleikur.

Viljum við búa í samfélagi þar sem einstaklingar taka sér dómsvald í hendur? Verkið fjallar um efann og þann sköpunarkraft sem felst í því að vera ekki viss, að þurfa að velta hlutunum fyrir sér og komast kannski ekkert endilega að réttri niðurstöðu. Það er skapandi eins og það er nagandi að efast.“

Að geta leikið er náðargáfa

Leikhús- og kvikmyndaheimurinn hefur verið hvað mest áberandi í metoo-umræðunni en Steinunni Ólínu hefur ekki fundist hún knúin til þess að niðurlægja sig kynferðislega til að fá vinnu sem leikkona. „En ég hef auðvitað fengið minn skammt af durts- og dólgslátum karlmanna í gegnum lífið eins og því miður flestar konur en ég hef aldrei upplifað sviðslistaheiminn sérstaklega sem hættulegan eða kvenfjandsamlegan.

Það hryggja mig sögur ungra kvenna í sviðslistaheiminum, sér í lagi sögur úr skólum þeim sem kenna fagið. Þar hefur eitthvað mikið verið að í kennsluháttum og mér finnst ótækt að þar axli ekki stjórnendur ábyrgð á mannaráðningum og starfsháttum sem þar hafa augljóslega viðgengist.

Ég fer ekkert ofan af því að í einhvern tíma virðast nemendur á leikarabraut Listaháskóla Íslands hafa farið á mis við faglegt nám og ef ég væri menntamálaráðherra myndi ég fara ítarlega ofan í saumana á því hverju það sætir. Það er ekki nóg að einhverjar karldulur segi sig frá störfum til að friða mannskapinn og slá ryki í augu almennings.

Að nemendur í leiklistarnámi hafi þurft að sæta andlegu og kynferðislegu ofbeldi af hendi kennara eins og sögur vitna um er fráleitt. Leiklist er ekki sálarfræði, þú kennir engum að leika með því að brjóta viðkomandi niður. Að geta leikið er náðargáfa og nemendur í leiklistarskólum eiga heimtingu á því að læra að beita þeirri náðargáfu. Fá fyrst og fremst tekníska þjálfun í raddbeitingu, textameðferð og líkamsbeitingu svo eitthvað sé nefnt. Í leiklistarskóla eiga nemendur að öðlast það sjálfstraust að geta farið frá sjálfum sér og búið til listaverk í hlutverkum sínum. Það fæst ekki með stöðugu niðurbroti eða kolrangri áherslu á sálarlíf leikarans. Sálarlíf leikara er ekkert interessant og enginn borgar sig inn í leikhús til að fylgjast með því. Það er hins vegar áhugavert að horfa á leikara sem geta búið til persónur á sviðinu sem eru ólíkar þeim sjálfum.“

Ekki karlmenn heldur vesalingar

Steinunn Ólína leggur þó áherslu á að það sé varasamt að taka leiklistar- og bíóbransann út fyrir sviga í þessari umræðu. „Metoo hefur áhrif á allt samfélagið í gegnum allar starfsstéttir. En fjölmiðlar hafa sérlegan áhuga á metoo-umræðu um sviðslistafólk því þar er um oft þjóðþekktar persónur að ræða og svokallað frægt fólk fer vel í munni smjattpattanna. Í sviðslistum einum af öllum þeim starfsstéttum sem um málið hafa tjáð sig hafa einstaklingar verið nafngreindir og hlotið dóm samfélagsins án þess að fá réttláta málsmeðferð. Ég er ekki viss um að neitt okkar vilji innst inni búa í slíku samfélagi.

Metoo-umræðan mun skila árangri er ég viss um að því leyti að hún mun taka að sér að siða til óuppalda karlmenn og gera þeim grein fyrir að þeir geta ekki hagað sér eins og drullusokkar og hálfvitar. Ég er fædd 1969 og alin upp af kvenréttindakonu og karlmanni sem hefur alltaf borið ótakmarkaða virðingu fyrir konum. Karlmenn sem beita konur ofbeldi eru ekki karlmenn heldur vesalingar. Uppeldi mitt mótaði mig og ég hef aldrei gefið karlmönnum sem hafa sýnt mér óvirðingu nema augnabliksathygli og fyrst og fremst fyrir forvitni sakir. Hver ól þetta eiginlega upp? hefur maður spurt sig?“

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 13. janúar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×