Innlent

Fimmtíu ný störf á Eyrarbakka

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Eyrarbakki.
Eyrarbakki. visir/RJ
Óskar Örn Vilbergsson og Þór Reynir Jóhannsson hafa kynnt fyrir bæjarráði Sveitarfélagsins Árborgar hugmyndir sínar um byggingu steinullarverksmiðju á landi vestan við Eyrarbakka. „Það eru allar kjöraðstæður á Eyrarbakka undir svona starfsemi, svarti sandurinn úti um allt, sem er uppistaðan í verksmiðju sem þessari, og svo er stutt í höfnina í Þorlákshöfn vegna útflutnings til Evrópu og Kanada,“ segir Óskar Örn sem býr á Eyrarbakka. Hann segir að ef allt gangi eftir verði byrjað á verksmiðjunni í haust og hún gæti orðið tilbúin í framleiðslu tveimur árum síðar.

„Við erum að sjá fyrir okkur að fimmtíu ný störf yrðu til á Eyrarbakka með verksmiðjunni sem yrði mikil vítamínsprauta fyrir þetta litla þorp,“ bætir Óskar Örn við. Bæjarráð Árborgar tók hugmyndinni vel.

„Okkur líst mjög vel á þessa framkvæmd og fögnum því að fá ný atvinnutækifæri í sveitarfélagið. Þetta verður líka umhverfisvæn verksmiðja sem okkur líst vel á, auk þess sem mörg tæknistörf verða í verksmiðjunni,“ segir Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×