Enski boltinn

City vill ekki borga fyrir Sanchez │ Gæti endað hjá United

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Hvað gerist? Sagan um Sanchez hefur verið endalaus síðustu mánuði
Hvað gerist? Sagan um Sanchez hefur verið endalaus síðustu mánuði vísir/getty
Forráðamenn Manchester City vilja ekki borga uppsett verð fyrir Alexis Sanchez og eru því tilbúnir til þess að missa mögulega af leikmanninum yfir til erkifjendanna í Manchester United.

Arsenal vill fá 35 milljónir punda fyrir Sanchez, auk þess sem umboðsmaður hans vill 5 milljónir, sem gerir heildarkostnaðinn fyrir City 40 milljónir, tvöfalt meira en liðið er reiðubúið að greiða.

Sanchez verður samningslaus í sumar og gæti því farið frítt. Manchester City ætlaði sér alltaf að bíða þar til í sumar, ef marka má heimildir fjölmiðla á Englandi, en eftir að Gabriel Jesus meiddist í desember var talið líklegt að City myndi ná sér í Sílebúann í janúarglugganum.

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri City, sagði á blaðamannafundi í dag að nú væri útlit fyrir að Jesus gæti snúið til baka eftir 2-3 vikur, og því vill félagið ekki eyða 40 milljónum punda í leikmann sem gæti komið frítt í sumar.

Hins vegar bárust af því fregnir í gær að Manchester United hefði áhuga á að kaupa leikmanninn, og því gæti City misst af honum fari svo að United borgi fyrir hann nú í janúar.

Jose Mourinho vildi ekki gefa neitt út á blaðamannafundi sínum, en útilokaði þó ekki möguleikann á að fá Sanchez til United.

Sanchez sjálfur er sagður vilja fara til City, en hann vill einnig ólmur losna frá Lundúnaliðinu nú í janúar. Arsenal mun þó ekki selja leikmanninn nema hafa tryggt sér arftaka hans.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×