Innlent

Leigubílstjórar hvergi bangnir

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Ástgeir Þorsteinsson er formaður bifreiðastjórafélagsins Frama.
Ástgeir Þorsteinsson er formaður bifreiðastjórafélagsins Frama.
„Þetta leggst misvel í menn enda menn mismunandi en heildin hræðist þetta ekki,“ segir Ástgeir Þorsteinsson, formaður Bifreiðastjórafélagsins Frama, um nætur­akstur Strætó bs. sem hófst í nótt. Framtakinu virðist almennt hafa verið vel tekið en heyrst hefur að leigubílstjórar séu margir fullir efasemda og lítist illa á samkeppnina.

Ástgeir bendir réttilega á að næturakstur Strætó hafi áður verið reyndur fyrir nokkrum árum og lítið sé við því að gera þegar slíkar ákvarðanir eru teknar.

„Menn gáfust upp á þessu þá og við verðum að sjá hvað setur.“

Næturaksturinn mun þó hafa það í för með sér að leigubílaröðin við Lækjartorg heyri sögunni til þar sem næturvagnarnir stöðva þar. Leigubílar munu eftir sem áður hafa aðstöðu neðst í Hverfisgötu, í Aðalstræti og við Lækjargötu hjá Bernhöftstorfu. Ástgeir segir að leigubílstjórar óttist ekki að missa spón úr aski sínum.

„Við eigum ekki von á því, miðað við fyrri reynslu af svona akstri, þá gerðist það alls ekki. Við getum lítið gert, þeim er þetta heimilt. Við eigum þetta ekki. En við verðum áfram með bíla í fullri þjónustu. Það breytist ekkert og við horfum bjartsýnir fram á veginn í þessum málum eins og öðrum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×