Innlent

Grunur um fjárdrátt og starfsfólk í miklu áfalli

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Ábending um meint fjármálamisferli starfsmannsins fyrrverandi barst rétt fyrir jól. Talið er að það hafi staðið yfir frá 2010 til 2015.
Ábending um meint fjármálamisferli starfsmannsins fyrrverandi barst rétt fyrir jól. Talið er að það hafi staðið yfir frá 2010 til 2015. Vísir/Vilhelm

„Þetta er mikið áfall,“ segir Halldór Torfason, framkvæmdastjóri Malbikunarstöðvarinnar Höfða hf., um viðbrögð starfsfólks fyrirtækisins sem í gær var greint frá þeim tíðindum að fyrrverandi fjármálastjóri fyrirtækisins væri grunaður um fjármálamisferli á sex ára tímabili.

Fjármálastjórinn fyrrverandi lést í nóvember 2016 eftir veikindi, aðeins 63 ára að aldri. Konan sem um ræðir hafði starfað hjá Malbikunarstöðinni í nærri þrjátíu ár þegar hún lést.

Malbikunarstöðin er í eigu Reykjavíkurborgar en stjórn fyrirtækisins sendi fjölmiðlum tilkynningu vegna málsins í gær þar sem segir að 21. desember síðastliðinn hafi framkvæmdastjóra borist ábending um mögulegt misferli fjármálastjórans.

Halldór Torfason, framkvæmdastjóri Malbikunarstöðvarinnar Höfða. vísir/anton brink

Þar sagði að skoðun stjórnenda fyrirtækisins hafi leitt í ljós að bókhaldsgögn studdu þessar grunsemdir og að stjórn fyrirtækisins og eiganda, sem er Reykjavíkurborg, hafi verið tilkynnt um málið.

Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar hóf þegar rannsókn og frumskoðun hennar hefur leitt í ljós að hið meinta misferli nemur rúmlega 30 milljónum króna og er talið hafa staðið yfir árin 2010 til 2015. Þá segir í tilkynningunni að engar vísbendingar séu um að fjármálastjórinn fyrrverandi hafi átt sér vitorðsmenn innan fyrirtækisins.

Rannsókn Innri endurskoðunar stendur enn yfir en niðurstöður þeirrar rannsóknar verða því næst lagðar fyrir Endurskoðunarnefnd Reykjavíkurborgar sem hefur það hlutverk að ákveða framhald málsins.

Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins er skýrslu um málið að vænta í næstu viku. Stjórnin segir í tilkynningu að frekari upplýsingar verði veittar þegar Endurskoðunarnefnd hafi farið yfir málið.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.